Magnús Már og Ásta Björk (1990)

Magnús Már og Ásta Björk

Tvö bolvísk börn, Magnús Már Einarsson og Ásta Björk Jökulsdóttir, sendu frá sér sex laga plötu árið 1990 að undirlagi systkinanna Soffíu og Hrólfs Vagnssonar.

Söngvarar plötunnar, Magnús Már og Ásta Björk eru bæði fædd 1981 og voru því aðeins níu ára gömul þegar þau tóku sér á hendur ferðalag til Hannover í Þýskalandi árið 1990 þar sem Hrólfur Vagnsson var með hljóðver og platan var tekin upp, systir Hrólfs, Soffía átti einnig stóran þátt í verkefninu en hún samdi flesta texta plötunnar auk þess að semja eitt laga hennar en Hrólfur samdi tvö laganna, stjórnaði upptökum,útsetti og annaðist allan hljóðfæraleik. Þau Hrólfur og Soffía eru einnig frá Bolungarvík.

Platan sem bar nafn þeirra Magnúsar Más og Ástu Bjarkar fékk almennt góðar viðtökur og einkum í Bolungarvík þar sem hún var söluhæsta platan það árið. Tvö laganna á plötunni höfðu nokkra sérstöðu, Líf án lita var samið fyrir barnamenningarátak menntamálaráðuneytisins af tveimur fimmtán ára Bolvíkingum, Jónatani Einarssyni og Ernu Jónmundsdóttur, hitt lagið – Hann gleymdi að horfa var tileinkað áhugahópi fyrir bættri umferðarmenningu. Platan fékk frábæra dóma í DV en önnur gagnrýni birtist ekki um hana.

Efni á plötum