Margrét Hjálmarsdóttir (1918-2005)

Margrét Hjálmarsdóttir

Kvæðakonan Margrét Hjálmarsdóttir var öflug við varðveislu rímna og annars kveðskapar, m.a. með Kvæðamannafélaginu Iðunni og Kvæðamannafélagi Hafnarfjarðar, heyra má kveðskap hennar á plötum.

Margrét var fædd á Blönduósi 1918 en flutti ung til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni. Hún var alin upp við kveðskap en Hjálmar Jónsson frá Bólu (Bólu-Hjálmar) var langafi hennar, og þegar Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað 1929 var hún skráð í félagið ásamt systkinum sínum en að minnsta kosti tveir bræðra hennar, Kjartan og Ríkarður voru lengi virkir í félaginu. Strax á þessum árum var Margrét farin að kveða á fundum en hún hafði einungis verið sex ára þegar hún var látin syngja inn á vaxhólk.

Faðir Margrétar lést 1927 og árið 1930 flutti móðir hennar með þau systkinin norður í land þar sem þau bjuggu um árabil, þar eignaðist Margrét sjálf eiginmann og börn og bjuggu þau víða um norðanvert landið en þegar hún skildi við mann sinn fluttist hún aftur suður til Reykjavíkur (1965) og bjó þar síðan. Hún varð þá strax aftur virk í starfi Kvæðamannafélagsins Iðunnar og einnig Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar og varð fremst í flokki þeirra sem stóðu að varðveislu þessa menningararfs okkar Íslendinga. Hún kom margoft fram í útvarpinu og kvað rímur og annan kveðskap og í safni Ríkisútvarpsins og Þjóðminjasafnsins eru varðveitt ógrynni slíks kveðskapar fyrir þeirra tilstuðlan. Einnig annaðist Margrét kvæðalagaþátt í útvarpinu um tíma. Þá voru dæmi um að erlendir áhugamenn heimsæktu hana og fengu hana til að flytja slíkan kveðskap á segulbönd.

Margrét sinnti öðrum tónlistartengdum hugðarefnum, hún söng t.d. í kórum bæði norðan heiða og sunnan, m.a. í Liljukórnum og Kór Landakotskirkju en auk þess lék hún á harmonikku. Rímur og annar tengdur kveðskapur var þó aðal áherslan hjá henni og talið var að hún kynni um fimm hundruð rímnalög, hún mun einnig eitthvað hafa samið sjálf af slíkum kveðskap.

Árið 1980 sendu SG-hljómplötur frá sér plötu með Margréti sem bar titilinn Þetta er gamall þjóðarsiður: Margrét Hjálmarsdóttir kveður 33 rímnastemmur. Eins og gefur að skilja var ekki um neina metsöluplötu að ræða en Svavar Gests (SG) var mikið í mun að varðveita rímnahefðina hér á landi og gaf því út slíkar plötur af hugsjón.

Margrét flutti kveðskap opinberlega á samkomum kvæðamannafélaganna en einnig kom fyrir að hún kæmi fram við önnur tækifæri, hér má nefna styrktarskemmtun sem Kattavinafélagið stóð fyrir árið 1978 (en Margrét var mikil kattakona) og hafnfirska menningarvöku árið 1981.

Og Margrét kom við sögu á fleiri útgefnum plötum og kassettum, t.a.m. á plötunni Geymd: Íslenzkur kveðskapur í geymd Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar (1981), kassettu sem Leiðsögn um landið sf. gaf út og innihélt fróðleik um Njáluslóðir og Raddir, gefnar út af Smekkleysu í samvinnu við Árnastofnun (1998).

Margrét Hjálmarsdóttir lést í upphafi árs 2005, á áttugasta og sjöunda aldursári.

Efni á plötum