Mary Poppins (1997-2000)

Mary Poppins

Hljómsveitin Mary Poppins var eins konar fjarskyldur ættingi hljómsveitanna Jet Black Joe og Jetz en náði ekki þeim hæðum sem að minnsta kosti fyrrnefnda sveitin náði. Sveitin sendi þó frá sér smáskífu og breiðskífu í kringum aldamótin.

Gunnar Bjarni Ragnarsson hafði notið velgengni sem aðal lagasmiður Jet Black Joe og þegar sögu þeirrar sveitar lauk stofnaði hann Jetz sem náði ekki sömu vinsældum en þar hafði samstarfsmönnum hans fundist þeir fá lítið pláss í sveitinni og stofnuðu Vínyl, Gunnar Bjarni byrjaði hins vegar að starfa með söngvaranum Snorra Snorrasyni undir nafninu Mary Poppins vorið 1997. Gunnar Bjarni spilaði á flest hljóðfærin en Snorri lék eitthvað á gítar og hljómborð auk söngsins.

Mary Poppins var í grunninum dúett þeirra Gunnar Bjarna og Snorra en Óskar Ingi Gíslason trommuleikari var einnig viðloðandi bandið, hóað var í aukamannskap eftir því sem þurfti þegar spilað var á tónleikum. Gunnar Bjarni var allt í öllu eins og í fyrri sveitum sínum og þegar þeir félagar sendu frá sér sex laga stuttskífuna Promo voru þar fjögur lög eftir hann, eitt gamalt frá Jet Black Joe (Rain) og gamli Talking heads slagarinn Psycho killer, tónlistin þótti vera eins konar rokk sem þróast hefði út frá Jet Black Joe.

Gunnar Bjarni hafði háleit markmið um frægð og frama erlendis og vann að því að koma sveitinni á framfæri en jafnframt átti að koma út tvöföld breiðskífa fyrir jólin 1998, þar sem annar diskurinn átti að vera eins konar margmiðlunardiskur með aukaefni. Af því varð aldrei en tvö lög komu út með sveitinni á safnplötum það árið, Fire and ice: music from Iceland og Pottþétt 11.

Af einhverjum ástæðum hvarf sveitin af sjónarsviðinu um mitt ár 1999 og lá í dvala í um ár en þá birtist hún aftur með töluvert breytta skipan, Gunnar Bjarni var horfinn á braut (farinn til Bandaríkjanna) en dúettinn var orðinn að eiginlegri hljómsveit. Auk Snorra söngvara voru nú í Mary Poppins Steinar Gíslason gítarleikari, Símon Jakobsson bassaleikari og Hallgrímur Hallgrímsson trommuleikari, líklega var Örvar Omri Ólafsson gítarleikari einnig í henni en hann kemur a.m.k. við sögu á tíu laga plötu sveitarinnar sem kom út um svipað leyti og bar heitið Defeated. Tónlistin var orðin poppaðri en áður en andi Gunnars Bjarna sveif þó enn yfir tónlistinni þar sem hann samdi tónlistina á plötunni ásamt Snorra, fjögur laganna höfðu komið út á Promo en sex þeirra voru ný. Defeated hlaut slaka dóma í Morgunblaðinu og Fókus, og líklega urðu viðtökurnar þess valdandi að sveitin starfaði ekki lengi eftir útgáfu plötunnar. Um haustið 2000 auglýsti sveitin eftir trommuleikara en það virðist ekki hafa borið árangur og Mary Poppins því lognast endanlega útaf í kjölfarið.

Efni á plötum