Matthías Ægisson (1960-)

Matthías Ægisson

Nafn Matthíasar Ægissonar er ekki meðal þeirra þekktustu í tónlistarsögu Íslendinga en hann hefur sent frá sér plötur sem hafa trúarlegar skírskotanir, hann er af kunnum tónlistarættum.

Matthías fæddist á Siglufirði árið 1960 og starfaði þar með hljómsveitum eins og Áhrif og Gný, lék þar líklega á hljómborð og gítar en hann hefur í seinni tíð starfað með blússveitinni Kveinstöfum. Hann ku einnig vera liðtækur harmonikkuleikari eins og fleiri í hans ætt en hann er yngsti bróðir Gylfa, Lýðs og Sigurðar Ægissona sem allir hafa tengst tónlistargyðjunni böndum með einum eða öðrum hætti, reyndar má finna fleira tónlistarfólk í frændgarði þeirra bræðra.

Matthías hefur mestmegnis búið á höfuðborgarsvæðinu, tekið þátt í starfi Fíladelfíu-safnaðarins og m.a. starfað í lofgjörðarböndum í því sambandi, þá hefur hann einnig starfað með Páli Rósinkrans sem undirleikari. Hljóðfæraleik hans (og söng?) má heyra á nokkrum útgefnum plötum tengdum trúarstarfinu s.s. með gospelhópnum GIG og á safnplötum eins og Hjálparhönd, Sígildum sálmum, Lofum Drottin saman og Vísa mér þinn veg. Sjálfur hefur Matthías, eftir því sem best verður vitað, sent frá sér tvær plötur. Heimildir herma að önnur þeirra beri titilinn Matthías Ægisson leikur vinsæl lög en engar aðrar upplýsingar finnast um þá útgáfu, hin kom út árið 2009 og heitir Vegferð, á þeirri plötu koma ýmsir þekktir tónlistarmenn við sögu en sú plata hefur m.a. að geyma frumsamið efni.

Efni á plötum