Afmælisbörn 8. september 2019

Magnús Blöndal Jóhannsson

Fimm afmælisbörn eru í Glatkistu dagsins:

Fyrstan skal telja Gunnlaug Briem sem á fimmtíu og sjö ára afmæli, hann var lengi þekktastur fyrir trommuframlag sitt í hljómsveitinni Mezzoforte en hann hefur einnig verið í sveitum eins og Ljósunum í bænum, Park project, Dúndrinu, Model, Ófétunum og Mannakornum. Gunnlaugur hefur auk þess gefið út nokkrar sólóplötur undir nafninu Earth affair, og leikið inn á ótal plötur hjá öðrum listamönnum.

Daði Birgisson tónlistarmaður á fjörutíu og tveggja ára afmæli í dag. Hann hefur starfað með ýmsum tónlistarmönnum og leikið á ótal plötum í gegnum tíðina en hefur einnig starfað með hljómsveitum s.s. Mr. Moon, Jagúar, Mono town og Doors tribute band svo dæmi séu tekin. Daði hefur einnig starfað með Berki bróður sínum við upptökur undir nafninu Benzín bræður.

Magnús Blöndal Jóhannsson píanóleikari og tónskáld átti afmæli á þessum degi. Hann fæddist 1925 á Skálum á Langanesi, lærði á píanó fyrst hér heima en síðan í New York þar sem hann lagði einnig stund á tónsmíðanám og hljómsveitastjórnun. Hann var frumkvöðull á Íslandi í raftónlist, var m.a. í Musica Nova hópnum en starfaði hér heima sem hljómsveitarstjóri Þjóðleikhússins um árabil og hjá Ríkisútvarpinu. Magnús samdi einnig fjölmörg sönglög, þekktast þeirra er án efa Sveitin milli sanda. Hann lést 2005.

Árni Arinbjarnarson átti einnig afmæli þennan dag. Hann fæddist 1934, lærði á fiðlu og orgel hér heima og í London, og kom víða við í tónlistinni eftir að heim var komið. Hann lék meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kenndi tónlist víða, starfaði einnig sem organisti og var stjórnandi Hvítasunnukórs Fíladelfíu. Árni lést fyrr á þessu ári.

Karl Jóhann Sighvatsson hljómborðsleikari átti ennfremur afmæli á þessum degi. Karl sem fæddist 1950 á Akranesi, lék með ótal hljómsveitum hér fyrrum, m.a. Flowers, Trúbrot, Náttúru, Þursaflokknum og Dátum en var einnig aufúsugestur á plötum annarra listamanna og hljómsveita. Karl starfaði síðar sem organisti og kórstjórnandi í Árnessýslu. Hann lést af slysförum árið 1991.