Mind in motion (1991-93 / 2014)

Mind in motion

Danssveitin Mind in motion var framarlega í þeirri danstónlistarbylgju sem gekk yfir landið um og upp úr 1990, sveitin sendi frá sér nokkur lög og ein kassetta ku liggja eftir þá félaga en þrátt fyrir nokkra leit finnast ekki upplýsingar um hana.

Mind in motion var stofnuð í nóvember 1991 af þremur ungum Breiðhyltingum, það voru þeir Sveinbjörn Bjarki Jónsson, Vignir Þór Sverrisson og Þröstur Sigurjónsson sem allir spiluðu á hljóðgervla og forrituðu en tónlistin hefur verið skilgreind sem hardcore danstónlist. Tríóið fór fljótlega á flug og lék nokkuð opinberlega sumarið 1992, m.a. á óháðri listahátíð í Reykjavík og á tveimur fjölskylduútihátíðum um verslunarmannahelgina. Þá höfðu þeir félagar þegar sent frá sér lög á safnplötunni Icerave, Inner feelings og S.A.D. en bæði lögin vöktu töluverða athygli á sveitinni. Síðarnefnda lagið var reyndar eitt þeirra sem hlaut hvað mesta spilun á útvarpsstöðinni Útrás það árið, og var einnig ofarlega á Party zone vinsældarlistanum.

Sumarið 1993 átti Mind in motion einnig lög á safnplötunum Blávatn og Núll & nix / Ýkt fjör en um það leyti var sveitin að syngja sitt síðasta. Hún var þó endurvakin við mikla hrifningu á Sonar tónlistarhátíðinni árið 2014.

Mind in motion mun hafa sent frá sér eina kassettu, engar frekari upplýsingar er hins vegar að finna um þá útgáfu og er því hér með óskað eftir þeim.

Efni á plötum