Rafvirkjavísur

Rafvirkjavísur
Lag / texti: erlent lag / Ómar Ragnarsson

Á rafvirkjanna ævi geta ýmsir hlutir skeð,
sem ekki þykir ástæða að flíka mikið með.
Þó ætla ég að segja ykkur frá ævintýri því,
sem einn á þeirra skúffu lenti nýskeð í.

Í hans vinnustofu í vesturbænum hringdi fögur frú,
og fagurri röddu kvakaði og bað um þátt hans nú.
Í hennar rafmagnseldavél var eitthvað bilerí,
svo að hún óttaðist um líf sitt, nema gert yrði við því.

Hann flýtti sér og fór af stað og hafði handtök hrein,
og fannst það ekki saka að hún sagðist vera ein.
Hann þóttist alveg öruggur og þekkti hennar mann,
það var rafvirkinn sem að staðaldri í austurbænum vann.

Og skemmst er þar að segja frá að sú var ferð hans góð.
Hann sýslaði við eldavél og frú af miklum móð.
Honum finnst hann jafnvel vera í vafa í faðmlaganna hnút,
hvort frúin eða eldavélin leiddi meira út.

Og eftir þetta fjölgaði hans ferðum í það hús.
Mér finnst það nægja að segja, að þau urðu bæði dús.
Og sameiginleg vandamál þau virtust eiga mörg.
Yfir vandfúsinna ektamaka voru bæði örg.

Hún sagði mann sinn hættan vera að hugsa neitt um sig,
og honum fannst að deyfð hans konu væri grunsamlig,
þau hugguðu hvort annað í harmi þeirra og sút,
og hjarta sínu fátækari kom hann þaðan út.

En allt hefur sín takmörk og tók út yfir allt,
og taumlaust ástarbréf til konu sinnar fann hann snjallt.
Hann ætlaði sér að hafa upp á rótarþrjóti þeim,
en þannig fór að ráði sínu og kom því óvænt heim.

Með risavaxna rörtöng að vopni réðst hann inn
en fljótlega þó rann af honum mesti móðurinn.
Hann horfði nú í óttaslegin augu rafvirkjans,
sem var eiginmaður vesturbæjarvinkonunnar hans.

Það vildi til að báðir voru viturleikans menn,
og vildu bjarga málunum og sættir tókust senn.
Þeir skiptu bara um vinnustofu sammála um það,
að sjálfsagt væri að hafa bara allt á sama stað.

[m.a. á plötunni Ómar Ragnarsson – Fyrstu árin]