Oktavía Stefánsdóttir (1938-)

Söngkonan Oktavía Stefánsdóttir var nokkuð þekkt hér áður en lengi var talað um hana sem einu íslensku djasssöngkonuna.

Oktavía Erla Stefánsdóttir (f. 1938) er lærð leikkona og hefur starfað nokkuð við leikhús, m.a. við leikstjórn en í tónlistinni var hún þekktust fyrir að syngja djass, hún söng eitthvað með Hljómsveit Hauks Morthens seint á sjöunda áratug síðust aldar og einnig ásamt Rósu Ingólfdóttur á þjóðlagahátíðum um og upp úr 1970.

Hún fluttist til Danmerkur og bjó þar um nokkurra ára skeið en kom aftur heim árið 1982 og hóf þá að syngja aftur hér á landi, m.a. með djasskvartett Jazzvakningar, hún kom síðar einnig stundum fram með Jazztríói Guðmundar Ingólfssonar og sjálfsagt fleiri sveitum á djasstengdum uppákomum. Eftir það virðist Oktavía að mestu hafa hætt að syngja utan þess að hún var í sönghópnum Móður jörð / Gospelhóp Söngsmiðjunnar um miðjan tíunda áratuginn.

Eftir því sem næst verður komið er söng Oktavíu að finna á einni útgefinni plötu, Lax lax lax með Guðmundi Jónssyni og hefur hún þá væntanlega verið ein þeirra sem söng hlutverk eiginkonunnar í titillagi plötunnar.