Afmælisbörn 24. desember 2019

Rex Beckett

Aðfangadagur jóla hefur að geyma þrjú tónlistartengd afmælisbörn:

Jóhann R. Kristjánsson tónlistarmaður frá Egilsstöðum er fimmtíu og átta ára gamall í dag. Jóhann er ekki þekktasti tónlistarmaður þjóðarinnar en plata hans, Er eitthvað að? frá árinu 1982 hefur öðlast cult-sess meðal poppfræðinga. Á sínum tíma galt platan afhroð gagnrýnenda en hefur nú fengið uppreisn æru, og er í dag eftirsóttur safngripur.

Heimir Sindrason tannlæknir á einnig afmæli í dag en hann er sjötíu og fimm ára gamall. Heimir átti stuttan en gæfuríkan feril sinn sem tónlistarmaður um tvítugt er hann starfrækti þjóðlagadúettinn Heimir og Jónas ásamt Jónasi Tómassyni á meðan þeir voru við nám við Menntaskólann í Reykjavík, þeir gáfu út tvær breiðskífur en Heimir hefur einnig gefið út tvær sólóplötur síðan, um og eftir síðustu aldamót. Þess má geta að Heimir samdi lagið Hótel jörð við ljóð Tómasar Guðmundssonar.

Og að síðustu er hér nefnd kanadíska tónlistarkonan Rex Beckett en hún er þrjátíu og fjögurra ára gömul í dag. Rex Beckett hefur búið hér á landi í um áratug og var söngkona hljómsveitarinnar Antimony en hefur einnig komið fram undir aukasjálfinu Rex Pistols (áður Discipline).