Afmælisbörn 17. febrúar 2020

Ólafur Þórarinsson

Í dag eru fjögur tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Magnús Ólafsson skemmtikraftur og söngvari (Bjössi bolla) er sjötíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Tónlistarferill Magnúsar er mun stærri en fólk gerir sér almennt fyrir, hann ásamt Þorgeiri Ástvaldssyni söngvara gaf út tvær plötur undir nöfnum Hurðaskellis og Stúfs (og reyndar eina til sem þeir sjálfir) en einnig er söng hans að finna á plötum Sumargleðinnar, Áhafnarinnar á Halastjörnunni og Latabæjargengisins. Magnús gaf sjálfur út sólóplötuna Maggi með öllu árið 1988.

Ólafur Þórarinsson (Labbi í Glóru) er sjötugur í dag og á því stórafmæli. Labbi sem lengi var kenndur við hljómsveitina Mána frá Selfossi hefur leikið með fjölda annarra sveita á ferli sínum og má meðal annarra nefna hér Kaktus, Þrívídd, Blóðberg og Karma en auk þess hefur hann gefið út nokkrar sólóplötur. Margir þekkja útgáfu Labba af laginu Undir bláhimni en hann rak jafnframt hljóðver um tíma.

Örn Ármannsson gítar- og sellóleikari (1943-2006) hefði einnig átt afmæli á þessum degi. Hann lék með ýmsum hljómsveitum hér á árum áður og má þar nefna Fimm í fullu fjöri, Hljómsveit Svavars Gests, Tríó Jóns Páls Bjarnasonar, Hljómsveit Hauks Morthens, Musica Prima og Sumargleðina.

Jónatan Ólafsson tónlistarmaður átti ennfremur afmæli þennan dag. Jónatan (1914-97) átti ekki langt að sækja tónlistina en bræður hans, Sigurður og Erling, voru t.a.m. tónlistarmenn sem og fjöldi afkomendur þeirra og skyldmenni. Sjálfur var Jónatan píanóleikari og lék í fjölda hljómsveita s.s. Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Þorvaldar Steingrímssonar og Kátum piltum en hann samdi einnig fjölda þekktra laga s.s. Í landhelginni, Síldarvalsinn og Laus og liðugur (Sigurður var sjómaður), svo fáein séu hér nefnd.