Gerður Benediktsdóttir (1945-2021)

Gerður Benediktsdóttir

Gerður Benediktsdóttir telst meðal allra fyrstu barnastjarna hérlendis en flestir muna ennþá eftir stórsmellinum Æ, ó, aumingja ég, sem hún sendi frá sér þrettán ára gömul.

Gerður Jóna Benediktsdóttir fæddist 1945 í Reykjavík og ólst upp að miklu leyti í Höfðaborginni. Hún var meðal sautján ungra og efnilegra dægurlagasöngvara sem valdir voru úr ríflega sextíu manna hópi til að syngja á miðnæturskemmtun í Austurbæjarbíói vorið 1959, þá hafði hún reyndar eitthvað áður sungið opinberlega líklega um tíu ára aldur.

Fljótlega eftir skemmtunina í Austurbæjarbíói söng hún fyrrgreint lag, Æ, ó, aumingja ég inn á tveggja laga plötu, á hinni hlið plötunnar sungu þær Soffía og Anna Sigga lagið Órabelgur en hljómsveit Árna Ísleifs lék undir söng þeirra á plötunni. Lögin slógu bæði í gegn en lag Gerðar hefur þó lifað lengur í huga þjóðarinnar, þær Soffía og Anna Sigga sungu inn á fleiri plötur en Gerður lagði sönginn á hilluna.

Gerður bjó og starfaði í þrjá áratugi austur í Breiðdal, lærði nudd og grasalækningar og þegar hún kom aftur á höfuðborgarsvæðið starfaði hún lengst af við þau fög, varð þekktur nuddari og vann krem úr íslenskum jurtum. Hún birtist lítillega á söngsviðina á nýjan leik á síðari hluta tíunda áratugarins þegar hún söng ásamt fleirum á svokölluðum Höfðaborgarhátíðum en einnig á tónlistarsýningunni Laugardagskvöld á Gili sem var ein af fjölmörgum skemmtunum tengdum dægurtónlist sjötta og sjöunda áratugarins.

Það þarf varla að taka fram að lagið Æ, ó, aumingja ég hefur komið út á fjölda safnplatna í gegnum tíðina s.s. Manstu gamla daga (2007), Svona var 1959 (2005), Stelpurnar okkar (1994), Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977) og Óskalögin 2 (1998). Þess má geta að hljómsveitin Salsa Picante endurgerði lagið á sínum tíma og gaf út á safnplötunni Heyrðu 7 (1995).

Gerður lést sumarið 2021

Efni á plötum