Guðgeir Björnsson (1954-)

Guðgeir Björnsson

Guðgeir Björnsson (f. 1954) er blústónlistarmaður á Egilsstöðum en þar hefur hann starfað um árabil m.a. með hljómsveitinni Bræðingi en einnig með hljómsveit í eigin nafni. Guðgeir hefur margsinnis komið fram á tónlistarhátíðum eystra s.s. Djasshátíð Egilsstaða, Norðurljósablús (blúshátíð Hornfirðinga) og Blúshátíð á Stöðvarfirði, bæði með hljómsveitum og einn á sviði. Þá hefur hann margoft komið fram sem trúbador við ýmis önnur tækifæri.

Guðgeir var aukinheldur hér áður öflugur í leikhúslífinu á Egilsstöðum með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, lék sjálfur en kom einnig að tónlist tengt leikhúsinu bæði sem flytjandi og höfundur. Hann var t.d. meðal höfunda og flytjenda á kassettu sem gefin var út árið 1981 og hafði að geyma tónlist úr leikritinu Dr. Jón Gálgan, auk þess sem hann samdi tónlistina við leikritið Rauðhettu og úlfinn sem sett var á svið á Héraðsvöku árið 1978.