Gullnar glæður [safnplöturöð] (1988-91)

Haukur Morthens – Gullnar glæður

Þegar útgáfufyrirtækið Taktur eignaðist útgáfuréttinn á helstu perlum íslenskrar tónlistarsögu fór af stað ferli sem miðaði að því að endurútgefa þessa gömlu tónlist á geisladiskum en þá hafði mikið af þessari tónlist verið ófáanlegt í marga áratugi og aldrei komið út á geislaplötum. Safnplötuserían Gullnar glæður var liður í þessari viðleitni og störfuðu m.a. Gunnar Hrafnsson, Jónatan Garðarsson og Trausti Jónsson að því að velja og fara yfir efni platnanna. Fyrst voru Gullnar glæður (og allt efnið) í höndum Takts og gaf fyrirtækið út fyrstu tvær plöturnar í seríunni með Hauki Morthens og Hljómum haustið 1988 en þegar útgáfurétturinn komst í hendur Steina ári síðar hélt sú útgáfa áfram að gefa út undir seríunafninu Gullnar glæður, reyndar voru það bara tvær plötur í viðbót sem báðar voru með lögum Vilhjálms Vilhjálmssonar, Við eigum samleið og Í tíma og rúmi, sumarið og haustið 1991.

Þess má geta að þegar Steinar endurútgáfu Hljómaplötuna 1998 hafði hún fengið nýjan titil, Íslensku bítlarnir Hljómar frá Keflavík.

Þrátt fyrir að ætlunin væri að fleiri plötur kæmu út undir Gullnum glæðum, s.s. með Ingimar Eydal, urðu fyrrnefndu plöturnar fjórar þær einu sem komu út, Steinar gaf samt sem áður út fjölda annarra safnplatna og safnplötuseríur með svipuðu efni næstu árin.

Efni á plötum