Afmælisbörn 6. júlí 2020

Magnús Kjartansson

Sex afmælisbörn í tónlistargeiranum hafa þennan afmælisdag samkvæmt kokkabókum Glatkistunnar:

Magnús Kjartansson tónlistarmaður er sextíu og níu ára gamall. Hann sleit barnskónum í Keflavík og hóf þar tónlistarferil sinn en fáir hafa leikið með jafn mörgum þekktum hljómsveitum og Magnús. Svo nokkrar þeirra séu upp taldar skal nefna hér Hauka, Galdrakarla, Júdas, Óðmenn, Sléttuúlfana, Trúbrot, Brimkló og Brunaliðið en auk þess hefur hann leikið með ótal öðrum sveitum. Magnús hefur í raun komið að öllum mögulegum og ómögulegum hliðum tónlistarinnar s.s. plötuútgáfu, útsetningum, kórstjórnun, session spilamennsku og upptökum.

Elías B. Bjarnhéðinsson (El Puerco) frá Vestmannaeyjum er fimmtíu og sex ára en hann starfrækti lengi vel hljómsveitina Skötuseli í eyjunum og gaf út nokkrar plötur með þeim en einnig hefur sent frá sér sólóplötur. Elías er bróðir Árna Johnsen þjóðlagasöngvara.

Heimir Gestur Valdimarsson gítar- og hljómborðsleikari hinnar sálugu sveitar Jakobínurínu sem sigraði Músíktilraunir 2005, er þrjátíu og fjögurra ára gamall í dag. Hann hefur einnig verið í sveitum eins og Lada Sport og Tony Montana en hefur nú snúið sér að kvikmyndagerð í stað tónlistarsköpunar.

Píanóleikarinn og hljómsveitastjórinn Vladimir Ashkenazy (Valdimar Davíðsson) er áttatíu og þriggja ára gamall í dag. Þessi frægasti tengdasonur Íslands bjó hér á landi um árabil ásamt íslenskri eiginkonu sinni og hefur haft mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf t.d. með því að standa fyrir tónleikum heimsþekktra tónlistarmanna hér á landi, hæst ber þó líklega hvatning hans fyrir stofnun Listahátíðar í Reykjavík sem og barátta hans fyrir byggingu tónlistarhúss (Hörpu).

Kristján Kristjánsson óperusöngvari (1905-72) hefði einnig átt þennan afmælisdag en hmann sendi frá sér fimm lög á tveimur 78 snúninga plötum árið 1933. Kristján hafði áður orðið fyrstur til að syngja einsöng í útvarpi, fáeinum dögum eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa 1930. Sú upptaka kom út á safnplötunni Síðasta lag fyrir fréttir, sem út kom 1993.

Að síðustu skal nefna Sævar Marinó Ciesielski söngvara og gítarleikara (f. 1955) en hann starfrækti ásamt nokkrum samföngum á Litla Hrauni hljómsveitina Fjötra, sem gaf út plötuna Rimlarokk árið 1982. Sævar lést 2011.