Chernobyl (1998-2015)

Chernobyl

Hljómsveitin Chernobyl starfaði um nokkurra ára skeið innan mótorhjólasamfélagins og lék þá oftsinnis á samkomum tengdum klúbbamenningu þess hóps. Segja má að tíðar mannabreytingar hafi einkennt sögu Chernobyl.

Sveitin var stofnuð í byrjun árs 1998 af frændunum Jóni Ólafi Ingimundarsyni trommuleikara og Jóni Magnúsi Sigurðarsyni bassaleikara en þeir höfðu þá verið saman í hljómsveit áður. Þeir fengu til liðs við sig gítarleikarann Sigurð Erlingsson og skömmu síðar bættist við Reynir [Freyr Pétursson?] sem einnig lék á gítar. Söngkonan Agnes [?] kom einnig inn í Chernobyl og þá má segja að sveitin hafi verið fullskipuð.

Chernobyl var þannig skipuð þar til sumarið 1999 að Jón Magnús bassaleikari hætti og Agnes söngkona fljótlega í kjölfarið, lengi vel var því lítið að gerast hjá sveitinni og segja má að hún hafi legið í dvala þar til haustið 2000 að bassaleikarinn Haraldur [Arason?] kom inn í hópinn og hún fór þá aftur af stað, Reynir gítarleikari sá þá um sönginn. Fljótlega á nýju ári (2001) fékk sveitin nýja söngkonu, Díönnu Dúu Helgadóttur og enn urðu breytingar á sveitinni um vorið þegar Haraldur hætti og í hans stað kom Þórarinn Elvar Ragnarsson á bassann. Mannabreytingum var síður en svo lokið því Reynir gítarleikari hætti og Jón Þór Helgason tók við af honum sumarið 2002, sá var í sveitinni fram að áramótum 2002-03 en þá tók bróðir hans, Guðmundur Helgason við gítarleikarahlutverkinu og söng einnig ásamt Díönnu. Sveitin fékk til liðs við sig nýja söngkonu Hjördísi Láru Hjartardóttur og voru þá tvær söngkonur í Chernobyl um tíma en Díanna hætti síðan og þá var Hjördís söngspíra sveitarinnar. Einnig söng María Helgadóttir um skamman tíma með Chernobyl, sem og söngkona að nafni Rut [?].

Sveitin virðist hafa legið í dvala um tíma en árið 2009 birtist hún aftur og starfaði þá til ársins 2015 að minnsta kosti. Sveitin var þá framan af tríó þeirra Jóns Ólafs trommuleikara, Jóns Magnúsar bassaleikara (sem þá var aftur kominn í sveitina) og Baldvins Jónssonar gítarleikara en þeir tveir síðarnefndu skiptu með sér söngnum. Árið 2012 var Sigurður Erlingsson bassalegítarleikari aftur genginn til liðs við sveitina og tveimur árum síðar bættist í hópinn Sigurjón Skæringsson sem tók þá við söngvarahlutverkinu og lék einnig á gítar. Þannig skipuð starfaði Chernobyl til vors 2015 en svo virðist sem sveitin hafi ekki starfað síðan þá.