Combo Eyþórs Þorlákssonar (1959-66)

Combo Eyþórs Þorlákssonar

Combo Eyþórs Þorláksson starfaði um nokkurra ára skeið á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en combo-ið var lengst af húshljómsveit á Röðli.

Sveitin kom fyrst fram árið 1959 og var þá skipuð hljómsveitarstjóranum Eyþóri Þorlákssyni gítarleikara, Reyni Jónassyni saxófónleikara, Guðjóni Pálssyni píanóleikara, Hrafni Pálssyni bassaleikara og Guðmundur Steingrímssyni trommuleikara. Haustið 1962 var sveitin ráðin sem húshljómsveit á Röðli og þar átti hún eftir að spila næstu árin – þá voru í henni auk Eyþórs, Sigurður Guðmundsson píanóleikari, Sigurbjörg Sveinsdóttir söngkona (eiginkona Eyþórs) og Trausti Thorberg gítarleikari en hann lék líklega upphaflega á bassa í sveitinni.

Einhverjar frekari mannabreytingar urðu á combóinu meðan það starfaði og meðal tónlistarfólks sem störfuðu með því má nefna Sverri Garðarsson trommuleikara, Þórarin Ólafsson píanóleikara, Sverri Sveinsson bassaleikara og Sigurdór Sigurdórsson söngvara. Sveitin lék mestmegnis á Röðli en hún kom einnig eitthvað fram á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum, auk þess sem sveitin lék eitt sumarið (1964) á Spáni en Eyþór hafði verið þar í námi.

Þess má geta að árin 1960 og 61 lék sveitin á tveimur tveggja laga plötum Erlings Ágústssonar, sem innihéldu vinsæl lög eins og Oft er fjör í Eyjum, Við gefumst aldrei upp og Þú ert ungur enn.

Combo Eyþórs Þorlákssonar starfaði fram til ársins 1966.

Efni á plötum