Flasa (1996-97)

Flasa

Hafnfirska hljómsveitin Flasa starfaði á síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar og var m.a. meðal þátttökusveita í Músíktilraunum.

Ekki liggur fyrir hvenær Flasa var stofnuð en hún var vorið 1996 farin að leika nokkuð opinberlega á heimaslóðum í Hafnarfirði, m.a. á tónleikunum Kaktus ´96. Ári síðar, vorið 1997 keppti sveitin í Músíktilraunum Tónabæjar og voru meðlimir hennar þá Kristinn Alfreð Sigurðsson gítarleikari, Ríkarður Grétar Kolbeinsson trommuleikari, Ívar Örn Kolbeinsson söngvari og Baldur Fannar Andrésson bassaleikari. Sveitin komst í úrslit keppninnar en náði þó ekki á verðlaunapall. Nokkuð var á reiki hvernig tónlist Flösu var skilgreind, þegar sveitin lék á tónleikum í Hinu húsinu skömmu fyrir Músíktilraunir var hún sögð leika harða danstónlist, sjálfir sögðust þeir leika pönkað grunge en í umfjöllun um sveitina í tilraununum var hún sögð leika einfalt framsækið rokk.

Flasa starfaði eitthvað áfram eftir Músíktilraunirnar, og var meðal sveita sem skemmtu á Bindindismóti í Galtalæk um verslunarmannahelgina 1997, hún virðist þó hafa hætt störfum fljótlega eftir það.