Flamingo kvintettinn [2] (1960-63)

Flamingo kvintettinn 1960

Flamingo kvintettinn (um tíma kvartett) var meðal vinsælustu ballsveita landsins upp úr 1960 og var um tíma fastráðin í Vetrargarðinum í Tívolíinu í Vatnsmýrinni, sveitin lék einnig nokkuð hjá ameríska hernum á Keflavíkurflugvelli.

Sveitin var stofnuð síðsumars 1960 og var fljótlega komin í Vetrargarðinn í Tívolíinu þar sem hún skemmti lengstum en lék þó einnig á stöðum eins og Silfurtunglinu, Lídó og víðar, jafnvel á miðnæturtónleikum ásamt fleiri sveitum í Austurbæjarbíói. Þá komst Flamingo kvintettinn á samning hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og lék þar oftsinnis, og varð þar jafnvel svo fræg að leika í beinni útsetningu í sérstökum þætti Kanasjónvarpsins um sveitina.

Í upphafi skipuðu Flamingo kvintettinn þeir Júlíus Sigurðsson saxófón- og harmonikkuleikari sem þá var titlaður hljómsveitarstjóri, Hörður Karlsson gítarleikari, Sigurður Þórarinsson gítarleikari, Benedikt Pálsson trommuleikari og Haukur Gíslason bassaleikari, svo virðist sem sveitin hafi haft á að skipa tveimur gítarleikurum í byrjun en slíkt var þá fátítt meðal íslenskra hljómsveita. Jón Stefánsson var söngvari hljómsveitarinnar.

Flamingo og Garðar

Eftir smá pásu um sumarið 1961 birtist Flamingo nokkuð breytt og hafði þá Júlíus hætt og Benedikt trommuleikari tekið við hljómsveitarstjórn, hann og Haukur bassaleikari voru einir eftir af upprunalegu útgáfu sveitarinnar en nýir meðlimir voru Stefán Þorleifsson saxófónleikari, Andrés Indriðason gítarleikari og Carl Möller píanóleikari en Pálmar Sigurbergsson tók líklega fljótlega við af honum. Garðar Guðmundsson var þarna orðinn söngvari sveitarinnar í stað Jóns. Og fleiri mannabreytingar urðu á Flamingo, Njáll Sigurjónsson var um haustið kominn á píanóið og Þór Nielsen á bassann í stað Hauks og þar með var Benedikt einn eftir af upprunalega bandinu, Þór gat einnig sungið og því voru söngvarar sveitarinnar tveir – hann og Garðar. Júlíus kom svo aftur inn í sveitina fljótlega í stað Stefáns saxófónleikara.

Árið 1962 höfðu enn orðið breytingar á skipan Flamingos, Garðar söngvari var þá hættur í sveitinni og orðinn söngvari Pónik (og síðar Tóna) en Þór sá einn um sönginn og hafði nú sleppt bassanum og sá Sveinn Oddgeirsson nú um bassaleikinn, Rafn Sigurðsson gítarleikari og Sveinn Sigurkarlsson píanóleikari komu einnig inn í sveitina en aðrir meðlimir voru sem fyrr Benedikt og Júlíus. Rúnar Georgsson saxófónleikari kom fram með sveitinni í nokkur skipti í Vetrargarðinum um það leyti.

Flamingo í Kanasjónvarpinu

Flamingo starfaði líklega fram á mitt ár 1963 og þá höfðu enn orðið breytingar á skipan sveitarinnar, Carl Möller var aftur kominn á píanóið og Jón Svanur Pétursson harmonikku- og víbrafónleikari var kominn í sveitina en aðrir meðlimir voru þá Benedikt trommuleikari, Júlíus saxófónleikari, Sveinn bassaleikari og Þór söngvari. Þannig var hún líklega skipuð þegar sveitin hætti störfum síðla vors 1963 en þá höfðu hátt í tuttugu manns komið við sögu hennar á þeim tæplega þremur árum sem hún starfaði.