Fresh [1] (1976-77)

Fresh í júní 1976

Hljómsveitin Fresh, sem kenndi sig aðallega við fönktónlist, starfaði á árunum 1976 og 77 og var þá nokkuð áberandi í íslensku tónlistarsenunni án þess þó að senda frá sér efni á plötum, sveitin lék töluvert af frumsömdu efni. Sveitin gekk í fyrstu undir nafninu Fress en því var svo breytt í Fresh um sumarið 1976, hún var þó auglýst áfram undir báðum nöfnunum.

Fresh var stofnuð veturinn 1975-76, líklega þó ekki fyrr en eftir áramótin og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Ómar Óskarsson hljómborðsleikari og söngvari, Thomas Landsdown gítarleikari, Sveinn Magnússon bassaleikari og Jónas Björnsson trommuleikari, þannig var sveitin skipuð þegar hún kom fyrst fram opinberlega vorið 1976.

Fresh lék töluvert á skemmtistöðum borgarinnar og svo einnig á dansleikjum víða um land, m.a. á útihátíðum um verslunarmannahelgar en líklega náði sveitin hátindi sínum þegar hún lék frumsamið efni ásamt fleiri hljómsveitum á tónleikum sem báru yfirskriftina Rock‘n roll festival í Laugardalshöllinni um haustið 1976 en þar sáu um tvö þúsund áhorfendur sveitina. Fresh lék einnig nokkuð hjá bandaríska hernum á Keflavíkurflugvelli.

Fresh

Heilmiklar breytingar urðu á skipan sveitarinnar meðan hún starfaði og þær hófust sumarið 1976 þegar þeir Finnbogi Kjartansson bassaleikari og Hrólfur Gunnarsson trommuleikari komu í stað þeirra Sveins og Jónasar, um svipað leyti bættist Pétur Kristjánsson píanóleikari (iðulega kallaður Pétur „kapteinn“ – ekki Pétur W. Kristjánsson) í sveitina og voru þá tveir hljómborðsleikarar í henni. Síðsumars kom aukinheldur inn í sveitina Rúnar Georgsson saxófónleikari, sem var þá orðin að sextett. Rúnar staldraði reyndar ekki lengi við og hætti í desember sama ár, Pétur var þá þegar einnig hættur. Einnig hafði staðið til að Gunnlaugur Melsteð myndi ganga til liðs við Fresh tímabundið um sumarið en af því varð ekki.

Um áramótin 1976-77 fóru þeir Fresh-liðar í stutta pásu og þegar sveitin birtist aftur í febrúar höfðu orðið trommuleikaraskipti í en henni, Jónas Björnsson fyrri trymbill sveitarinnar hafði þá gengið til liðs sveitina á nýjan leik. Hann var þó ekki lengi í henni því Hrólfur tók aftur við af honum í júní, hafði gert stuttan stans í Paradís. Fresh starfaði ekki lengi eftir þetta og hætti fljótlega eftir verslunarmannahelgina sumarið 1977.

Ein heimild segir að Magnús Kjartansson hafi verið í Fresh um tíma en líklega er það ekki rétt, sá misskilningur gæti stafað af því að Finnbogi bróðir hans var meðlimur sveitarinnar.