Fríkirkjukórinn í Reykjavík (1899-2012)

Kór Fríkirkjunnar ásamt kammersveit um aldamótin

Fríkirkjan í Reykjavík var stofnuð haustið 1899 og líklega hefur verið starfandi kór við kirkjuna frá upphafi og nokkuð samfleytt, á ýmsu hefur þó gengið og hefur þurft að endurstofna kórinn að minnsta kosti tvívegis.

Fríkirkjan var sem fyrr segir stofnuð rétt um aldamótin 1900 og fljótlega var hús byggt við Reykjavíkurtjörn sem enn stendur. Orgel kom reyndar ekki í húsið fyrr en árið 1926 og varð Páll Ísólfsson fyrsti organisti kirkjunnar og gerðist þá um leið stjórnandi kórsins, vísbendingar eru þó um að kór hafi verið starfandi við kirkjuna fyrir þann tíma.

Páll var stjórnandi Fríkirkjukórsins í fjölmörg ár og um tíma var Sigurður G. Ísólfsson bróðir hans honum til aðstoðar, og tók svo við starfinu af Páli og gegndi því í áratugi eða í fjörutíu og fimm ár – til ársins 1983.

Það var Tékkinn Pavel Smid sem tók við hlutverki organista og kórstjórnanda Fríkirkjukórsins, meðan hann var við stjórnvölinn urðu mikil innanhús átök innan kirkjunnar með tilkomu nýs Fríkirkjuprests en þær deilur áttu eftir að standa yfir í nokkur ár, fyrst árið 1983 t.d. með þeim hætti að eiginkona prestsins sem starfrækti eigin söngkór tók verkefni frá kór Fríkirkjunnar, m.a. jarðarfararsöng. Þeim deilum mun hafa lyktað með því að kórinn hætti störfum eftir því sem heimildir segja, og nýr kór var stofnaður í kjölfarið undir stjórn stjórnandans. Sættir urðu í þessu máli innan kirkjunnar en fleiri mál komu upp milli prestshjónanna annars vegar og safnaðarins, sóknarnefndarinnar, kvenfélags kirkjunnar og kórsins hins vegar. Það var svo 1988 að enn kom upp ágreiningur og þeim átökum lyktaði að lokum með að prestinum var sagt upp störfum eftir mikil átök og blaðaskrif enda hafði þá kórstjórinn og kórinn ætlað að ganga út ef hann yrði áfram við störf. Þar með komst friður á í Fríkirkjunni og hægt var að halda áfram kirkju- og söngstarfi. Pavel stjórnaði svo kórnum allt til 1998 en svo virðist sem kórastarfið hafi legið að einhverju leyti niðri um miðjan tíunda áratuginn.

Kári Þormar stjórnaði Fríkirkjukórnum í fáein ár í kringum aldamótin og söng kórinn þá m.a. í nokkrum stórum kórverkum ásamt hljómsveit (Messias e. Händel o.fl.) en þegar hann tók við nýju starfi við Áskirkju fylgdi megnið af kórnum honum þangað svo enn þurfti að byrja á grunninum og æfa upp nýjan kór.

Þau Carl Möller og Anna Sigríður Helgadóttir tóku næst við tónlistarstjórnun við Fríkirkjuna og var starf þeirra með öðrum hætti en forvera þeirra, þau voru titluð tónlistarstjórar og var stjórnun kórsins aðeins hluti af því fjölbreytilega starfi en þau gegndu því til 2012. Enn urðu breytingar á tónlistarstarfinu, Aðalheiður Þorsteinsdóttir kom inn sem organisti og síðan Gunnar Gunnarsson og með aðkomu þeirra var hinn eiginlegi Fríkirkjukór líklega lagður niður undir því nafni, hann gekk um tíma undir nafninu Sönghópur Fríkirkjunnar en frá árinu 2014 hefur hann verið kallaður Sönghópurinn við Tjörnina enda varla nógu stór svo hægt sé að kalla hann kór. Það mætti því segja að sögu Fríkirkjukórsins í Reykjavík ljúki árið 2012.

Þess má einnig geta að síðustu árin hefur barnakórastarfið innan Fríkirkjunnar í Reykjavík verið með miklum blóma undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur.