Afmælisbörn 11. maí 2021

Sunna Gunnlaugs

Tvö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:

Jóhann (Óskar) Hjörleifsson trommu- og slagverksleikari með meiru er fjörutíu og átta ára gamall. Jóhann er trommuleikari Sálarinnar hans Jóns míns en hefur aukinheldur leikið með sveitum eins og Jagúar, Rokkabillíbandi Reykjavíkur, Stórsveit Reykjavíkur, Trix, Ullarhöttunum, Tríó Björns Thoroddsen og Straumum & Stefáni. Session-mennska hefur þó öðru fremur einkennt feril trommuleikarans og eru þær fáar sólóplöturnar sem Jóhann hefur ekki verið beðinn um að leika inn á.

Sunna Gunnlaugsdóttir djasspíanisti og tónskáld á einnig afmæli í dag en hún er fimmtíu og eins árs gömul. Sunna Gunnlaugs nam fræði sín m.a. í Bandaríkjunum og bjó þar lengi og starfaði, hún hefur sent frá sér fjölda sólóplatna og í nafni eigin djasstríós og starfaði jafnframt með fjölda hljómsveita heima á Íslandi hér áður s.s. LOS, Tónskröttunum, Tríói Jennýjar, Kvintett Scott McLemore og Undir tunglinu.

Vissir þú að hljómsveit skipuð drengjum um tíu ára aldur starfaði á níunda áratugnum undir nafninu Hass?