Samhjálp [félagsskapur / útgáfufyrirtæki] (1973-)

Merki Samhjálpar

Félagsskapurinn Samhjálp er ekki beinlínis tónlistartengt fyrirbæri en hefur þó komið að ýmsum tónlistartengdum verkefnum í formi tónlistarflutnings á samkomum þess og útgáfu á tónlist í gegnum árin.

Samhjálp var formlega stofnuð árið 1973 og var upphaflega meðferðarúrræði fyrir óreglufólk sem Fíladelfíusöfnuður Hvítasunnukirkjunnar setti á fót að sænskri fyrirmynd en Georg Viðar Björnsson hafði tveimur árum fyrr hafið starfið undir Samhjálpar-nafninu eftir að hafa kynnst sams konar úrræðum í Svíþjóð. Þegar Einar J. Gíslason forstöðumaður Fíladelfíu óskaði eftir að afmælisgjafir á fimmtugs afmæli hans rynnu til Samhjálpar byrjaði boltinn að rúlla og hafist var handa við að festa kaup á húsnæði. Það fannst í landi Hlaðgerðarkots í Mosfellsdalnum og þar hefur meðferðarheimili verið rekið síðan, og önnur starfsemi víðar.

Þegar framkvæmdastjóraskipti áttu sér stað 1978 tók Óli Ágústsson við keflinu og undir hans stjórn hófst nokkur útgáfustarfsemi á vegum Samhjálpar til styrktar Hlaðgerðarkoti og málefninu, hann hafði sjálfur komið að tónlist og þegar árið 1978 kom út plata sem bar nafnið Samhjálp en á henni sungu Fíladelfíukórinn og fleiri við undirleik stórrar hljómsveitar, tónlistin var trúarlegs eðlis og samdi Óli sjálfur textana en platan seldist í yfir tíu þúsund eintökum enda hafa Íslendingar yfirleitt verið tilbúnir að styrkja málefnið.

Tónlistarflutningur var þó nokkuð stór þáttur í samkomum Fíladelfíukirkjunnar og fjölmargir kórar, sönghópar og hljómsveitir hafa starfað innan hennar. Fleiri plötur (á annan tug plötutitla) hafa komið út á vegum Samhjálpar og allt fram á þessa öld, bæði með Fíladelfíukórnum en einnig með t.d. sönghópnum Fjölskyldunni fimm (sem innihélt Óla og nokkur barna hans), Anne, Garðari og Ágústu, Edgari Smára Atlasyni og Gunnbjörgu Óladóttur, jafnframt hefur Samhjálp gefið út nokkrar safnplötur með trúarlegum boðskap og bækur auk þess sem útgáfa Samhjálparblaðsins hefur verið á snærum þess um árabil.

Samhjálp starfar enn í dag og rekur meðferðarheimili, gistiskýli fyrir heimilislausa, kaffistofu og aðra margþáttaða starfsemi en hefur ekki lengur bein tengsl við Fíladelfíusöfnuðinn.