Samkór Vestmannaeyja [3] (1994-2004)

Samkór Vestmannaeyja

Samkór Vestmannaeyja hinn síðari starfaði í um áratug í kringum síðustu aldamót en hann fetaði í fótspor kórs sem hafði starfað fimmtán árum fyrr undir saman nafni í Vestmannaeyjum, sumir vilja meina að um sama kór sé að ræða en hér er miðað við að kórarnir séu tveir enda leið langur tími milli þess sem þeir störfuðu.

Samkór Vestmannaeyja var stofnaður haustið 1994 þegar Bára Grímsdóttir tónskáld var ráðin kórstjóri en hún var þá við tónlistarkennslu í Vestmannaeyjum, kórinn innihélt þá um þrjátíu kórmeðlimi og var fjöldi þeirra lengst af á bilinu þrjátíu til fjörutíu.

Rétt eins og fyrri kórinn (sem hafði starfað á árunum 1963-80) var þessi síðari kór duglegur við tónleikahald bæði í Eyjum og uppi á landi og stundum var hann í samstarfi við aðra aðila s.s. Lúðrasveit Vestmannaeyja. Það vakti mikla athygli þegar kórinn flutti ásamt Kór Landakirkju og Sinfóníuhljómsveit Íslands Pákumessuna e. Haydn vorið 1997 í Vestmannaeyjum en sá flutningur var svo endurtekinn í Langholtskirkju um haustið.

Bára var stjórnandi Samkórs Vestmannaeyja til vors 2002 en þá um haustið tók Anna Alexandra Cwalinska við kórstjórninni, hún var stjórnandi kórsins til ársins 2004 en hætti þá og í framhaldinu lagðist söngstarfið niður.