Shady Owens (1949-)

Shady Owens

Söngkonan Shady Owens gerði garðinn frægan hér á Íslandi á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda, söng þá með fjórum af vinsælustu hljómsveitum þess tíma og var um tíma nánast eina söngkonan hérlendis sem söng popptónlist – og e.t.v. má segja að hún hafi rutt brautina fyrir aðrar slíkar. Minna fór fyrir henni síðar enda starfaði hún að mestu erlendis en söngferli hennar var þó síður en svo lokið og hún reyndi fyrir sér bæði austan hafs og vestan.

Patricia Gail Owens eins og hún heitir réttu og fullu nafni fæddist í St. Louis í Bandaríkjunum en ólst að mestu upp í Texas, hún er hálf íslensk en hún á íslenska móður en bandarískan föður sem gegndi herþjónustu hér á landi. Hún kom í fyrsta sinn til Íslands sjö ára gömul árið 1956 en staldraði stutt við í það skiptið, það var svo árið 1962 sem hún fluttist hingað heim um tveggja ára skeið og bjó þá í Kópavoginum en kom svo í þriðja sinn sumarið 1967, þá átján ára gömul. Þá hafði hún fengið sína fyrstu reynslu í tónlistarbransanum, hafði komið eitthvað fram og sungið á skólaskemmtunum vestur í St. Louis og einnig sungið opinberlega með félaga sínum lög eftir Sonny & Cher undir nafninu Sunny & Shady og þar með festist Shady-nafnið við hana sem hún tók síðan upp sem sviðsnafn – Shady Owens.

Shady og Óðmenn

Hér á Íslandi bjó hún í Keflavík, starfaði á Vellinum til að byrja með en langaði til að sinna tónlistinni áfram. Hún setti sig í samband um haustið 1967 við hljómsveitina Óðmenn sem starfaði í Keflavík en þeir höfðu lítinn áhuga á að heyra í henni þar til að móðir hennar talaði við Val Emilsson gítarleikara, að hún var boðuð í prufu. Þeim leist strax vel á söngkonuna og síðla árs kom hún fram með sveitinni og söng nokkur lög með henni við góðan orðstír. Í kjölfarið var hún ráðin formlega sem söngkona Óðmanna og vakti strax athygli fyrir góðan söng og sviðsframkomu, hún var þá fyrsta og eina unga poppsöngkonan sem eitthvað kvað að hér á landi en söngkonur eins og Elly Vilhjálms, Helena Eyjólfs, Þuríður Sigurðardóttir og Svanhildur Jakobsdóttir voru þá fulltrúar eldri söngkvenna og voru í raun að syngja allt aðra tónlist og fyrir eldra fólk.

Vera Shadyar í Óðmönnum varð þó ekki ýkja löng, söngur hennar vakti sem fyrr segir töluverða athygli og frægasta hljómsveit landsins, Hljómar sáu möguleika í söngrödd hennar og um mitt sumar 1968 bárust fyrstu fréttir þess að hún væri í þann veginn að ganga til liðs við sveitina ásamt Gunnari Jökli trommuleikara sem þá var í Flowers. Og hlutirnir gerðust hratt á þessum tíma, þau komu fram með Hljómum í ágúst mánuði og slógu þar strax í gegn og ekki liðu margir dagar þar til sveitin hafði farið til London í plötuupptökur. Afrakstur þeirra var breiðskífa um haustið sem gengið hefur undir nafninu Hljómar II og á þeirri plötu syngur Shady m.a. tvö lög sem hafa orðið að sígildum poppsmellum síðar meir, Ég elska alla og Er hann birtist. Í áramótauppgjöri Vikunnar hlaut hún yfirburðakosningu sem söngkona ársins og hafði því á aðeins hálfu ári orðið að stórstjörnu í íslenskri tónlist.

Hljómar

Og hlutirnir héldu áfram að gerast hratt, fram eftir nýju ári 1969 gekk allt sinn vanagang og Hljómar spiluðu töluvert við miklar vinsældir en um vorið kvisaðist út að í bígerð væri stofnun súpergrúppu úr Hljómum og Flowers, sem varð síðan formlega að veruleika í maí þegar Trúbrot varð til, Shady, Gunnar Þórðarson og Rúnar Júlíusson komu úr fyrrnefndu sveitinni.

Trúbrot tók strax til við æfingar og í júlí kom sveitin fyrst fram opinberlega áður en hópurinn hélt til New York í plötuupptökur. Þar var tekin upp breiðskífa sem kom út um haustið samnefnd sveitinni. Það þarf auðvitað ekki að nefna að tónlistin naut strax vinsælda og tvö laganna sem Shady söng, Hlustaðu á regnið og Án þín voru meðal þeirra. Söngur Shadyar bar þess yfirleitt merki að íslenska væri ekki móðurmál hennar og þótti framburður hennar sérstæður, textahöfundar eins og Þorsteinn Eggertsson sem m.a. samdi fyrir Hljóma og Trúbrot gætti þess þó að forðast viss hljóð sem hún átti í vandræðum með í textaframburði sínum s.s. óraddað r. Slíkt var þó auðvitað ekki til staðar í þeim lögum sem sveitir hennar sungu á ensku og reyndar kom Shady lítillega við sögu í ensku textasmíðunum.

Í ársbyrjun 1970 bárust þær fréttir að Shady hygðist yfirgefa Ísland og flytjast til Bandaríkjanna, hún hætti þó við þau áform í bili en gaf það út að hún myndi hætta um sumarið, ástæðan fyrir þessum fregnum kunna að tengjast neikvæðri umræðu í kringum sveitina þegar meðlimir hennar voru gripnir með smáræði af hassi og viðurkenndu neyslu þess í Vikuviðtali. Hún starfaði því áfram með Trúbrot fram á sumarið og sveitin spilaði víða framan af ári en einnig tók Shady þátt í annars konar tónlistartengdum uppákomum, m.a. í gjörningi Combós Þórðar Hall þar sem hún söng Bítlalagið Yesterday en meðlimir sveitarinnar spiluðu hver sitt lag á sama tíma.

Shady Owens í Jesus Christ Superstar

Um vorið 1970 fór Trúbrot til Danmerkur, spilaði þar í klúbbum og hljóðritaði fimm lög sem komu út á tveimur smáskífum um haustið, tvö þeirra laga voru sungin af Shady, Ég veit að þú kemur (Ég vil að þú komir) og Starlight en hún var þá hætt í sveitinni og farin til New York þar sem hún átti eftir að búa og starfa næsta eina og hálfa árið. Shady fékkst lítið sem ekkert við tónlist þann tíma sem hún var vestra en kom reyndar til Íslands og kom þá fram með Trúbrot þegar sveitin frumflutti tónverkið …lifun í mars 1971. Í þeirri ferð kom hún einnig lítillega fram með hljómsveitinni Tilveru.

Síðla árs 1971 var Shady aftur komin heim til Íslands og í febrúar 1972 birtist hún mörgum að óvörum sem söngkona proggsveitarinnar Náttúru sem hún síðan söng með næstu mánuðina, sveitin hljóðritaði plötu um haustið sem kom út fyrir jólin undir heitinu Magic key, platan vakti ekki mikla athygli þá enda var þá léttari tónlist að taka yfir en í dag er hún merkilegur minnivarði um þennan tíma og reyndar sjaldséður og verðmætur dýrgripur.

Við árslok 1972 var gert opinbert að Náttúra myndi annast spilamennsku í söngleiknum Jesus Christ Superstar sem settur yrði á svið í Iðnó þá eftir áramótin og þar lék Shady aukinheldur hlutverk Maríu Magdalenu. Sýningin gekk fram á vor 1973 en þegar þeim lauk hætti Náttúra störfum og þar með stóð söngkonan verkefnalaus í bili. Hún kom þó fram á stórum tónleikum um haustið sem hljómsveitirnir Júdas og Change héldu í sameiningu.

Náttúra og Shady Owens

Þegar Náttúra hætti störfum lauk hljómsveitaferli Shadyar hér heima og við tóku mörg og ólík verkefni bæði hér á landi, vestur í Bandaríkjunum og síðan í Bretlandi. Haustið 1973 fór hún norður á Raufarhöfn til að starfa í fiski í skamman tíma og síðan í Vestmannaeyjum þar sem hún síðan starfaði um veturinn 1973-74, í Eyjum kynntist hún Axeli Einarssyni sem hafði þá starfað með fjölda hljómsveita. Þegar Shady yfirgaf landið og flaug vestur um haf um sumarið 1974 fór hún að starfa í hljómsveit með Bandaríkjamönnum sem hún hafði kynnst á Vellinum, undir nafninu Pegasus. Þegar gítarleikari þeirrar sveitar yfirgaf hana gerði Shady boð eftir Axeli sem gekk í sveitina og við þær breytingar tóku þau upp nafnið Icecross, sem Axel hafði einmitt notað á tríói sem hann hafði áður starfrækt. Sveitin starfaði í fáeina mánuði og eftir það ílengdist Shady í Bandaríkjunum og starfaði í Washington og Seattle með þarlendum sveitum eins og Oasis og Inter city romance.

Næst kom Shady Owens til Íslands sumarið 1977, þá söng hún lítillega með hljómsveitinni Póker en þetta sumar kynntist hún upptökumanninum Geoff Calver sem hér var að leggja lokahönd á plötuna Einu sinni var, með Gunnari Þórðarsyni félaga hennar úr Hljómum og Trúbroti. Þar hitti hún fyrir lífsförunaut sinn og gengu þau í hjónaband – því er söngkonan einnig þekkt sem Shady Calver. Þau hafa síðan búið og starfað í Bretlandi.

Shady um 1980

Haustið 1977 gerði Shady samning við útgáfufyrirtækið Ariola og á vegum þeirrar útgáfu komu út tvær smáskífur, hin fyrri síðla árs (I‘m counting on you / I´m saving all my love) og hin ári síðar (Nine times out of ten / Stars in our eyes) en báðar komu út í Bretlandi, Spáni og Þýskalandi. Þessar skífur fengu ekki þá athygli sem vonast hafði verið til en næstu árin var söngkonan mestmegnis í lausamennsku, söng m.a. á smáskífu sem Björgvin Halldórsson gaf út í Bretlandi og Bandaríkjunum undir nafninu Hot ice og einnig starfaði hún á þessum tíma lítillega með Jóhanni G. Jóhannssyni fyrrverandi samstarfsmanni sínum í Óðmönnum.

Þó svo að Shady byggi þarna orðið í Bretlandi var hún einnig eitthvað í Bandaríkjunum og svo kom hún reglulega hingað til Íslands í ýmis verkefni, hún söng t.a.m. hér haustið 1980 með Gunnari Þórðar og fleiri tónlistarmönnum á Skálafelli á Hótel Esju og ári síðar á styrktartónleikum fyrir MS-félagið og með Náttúru sem þá var endurvakin. Þá kom hún jafnframt við sögu á fjölmörgum plötum hér á landi, söng raddir á plötum með Mezzoforte, Þorgeiri Ástvaldssyni, Rúnari Júl. og plötu sem Gunnar Þórðarson og Pálmi Gunnarsson gáfu út saman 1982. Auk þess söng hún tvö lög á plötunni Himinn og jörð sem Gunnar sendi frá sér 1981. Þess má geta að lagið Í útilegu sem dúettinn Þú og ég sendu frá sér á plötunni Sprengisandur (1980) kom einnig út á ensku með dúettnum undir titlinum Shady‘s song / Shady lady en sá texti fjallar einmitt um Shady Owens.

Störf Shadyar í Bretlandi voru af ýmsum toga og þrátt fyrir að smáskífur hennar gengju ekki sem skyldi þá var feikinóg að gera hjá henni á öðrum sviðum, hún söng að t.a.m. í kabarett-sýninguum, söng raddir á nokkrum plötum m.a. með Kelly Marie, Chris Cameron og Grace Kennedy og á plötu með Suzy Quatro og fór reyndar tónleikatúr með þeirri síðarnefndu um Evrópu árið 1980. Shady gerðist síðar (1983) svo fræg að túra með hljómsveitinni The Police um nokkurra mánaða skeið um Bandaríkin, henni bauðst að fara annan ámóta túr með sveitinni sem og með Eurythmics og Meatloaf síðar en afþakkaði það. Shady tók einnig þátt í bresku undankeppni Eurovision keppninnar árið 1981 og var meðal tuttugu laga sem kepptu þar til úrslita. Á þeim árum starfaði hún einnig ásamt Steve Voice (og fleirum) undir nafninu Private line sem sendi frá sér eina smáskífu með hana innanborðs, og einnig með Découpage sem m.a. átti lag á safnplötunni Á fullu (1982), sú sveit hafði alla burði til að slá í gegn en einhvers konar klúður útgefandans mun hafa komið í veg fyrir það. Þá er ónefnt söngtríóið Prools sem gaf út smáskífu  1983.

Shady í Découpage sönghópnum

Síðustu tilraunir Shady Owens til að slá í gegn voru svo árið 1985 og 86 þegar hún í samstarfi við Steinar sem þá hafði verið að koma Mezzoforte á framfæri í Bretlandi og víðar með góðum árangri, gaf út smáskífuna Get right next to you. Skífan kom út í Bretlandi og víðar í Evrópu sem og Bandaríkjunum þar sem hún náði 22. sæti Billboard-dance listans en fór ekki hátt í Bretlandi, smáskífan hlaut fremur slaka dóma í gagnrýni í DV. Í kjölfarið kom lagið svo út á nokkrum safnplötum, m.a. hér heima á safnplötunni Á rás og Funkin‘ marvellous en á þeirri plötu mátti einnig heyra Mezzoforte blandaða syrpu þar sem Shady söng ásamt Puzzle-hópnum sem skipuðu ásamt henni Ellen Kristjánsdóttir og Chris Cameron sem þá starfaði með Mezzoforte.

Þrátt fyrir að hægðist á Shady tengt útgáfu- og meiktilraunum eftir miðjan níunda áratuginn hefur hún alltaf haldið tengslum við land og þjóð og var t.d. virk í samfélagi Íslendinga í London, söng þar m.a. í kór Íslendinga. Þá hélt hún áfram að koma hingað til lands og syngja fyrir þær kynslóðir Íslendinga sem forðum ólust upp við tónlist hljómsveitanna sem hún hafði sungið með hérlendis, þannig kom hún fram á fjölda skemmti- og söngdagskráa sem tileinkaðar voru því tímabili á skemmtistöðunum Broadway, Hollywood og á Hótel Íslandi. Þannig komu bæði Hljómar og Trúbrot fram á slíkum tónlistarskemmtunum en einnig var um almennar rokksýningar að ræða eins og Gæjar og glanspíur, Leitin að týndu kynslóðinni og Söngbók Gunnars Þórðarsonar.

Shady 1986

Shady býr ásamt eiginmanni sínum í Norður-Englandi og ferðum hennar til Íslands hefur eðlilega fækkað í seinni tíð enda hefur kvarnast smám saman úr þeim hópi sem hún starfaði með á sínum tíma, Karl J. Sighvatsson, Rúnar Júlíusson, Gunnar Jökull Hákonarson, Sigurður Árnason og Jóhann G. Jóhannsson eru t.d. allir fallnir frá en hún hefur komið fram á minningartónleikum um þá föllnu meistara og slíkir tónleikar hafa komið út á plötum s.s. um Karl og Rúnar. Það er einna helst Trúbrot sem hefur komið saman í einhverri mynd á þessari öld, síðast árið 2016. Í einnig slíkri Íslandsferð (árið 2015) fékk Gunnar L. Hjálmarsson (Dr. Gunni) Shady til að syngja inn á plötu sína, Í sjoppu og er það líkast til síðasta platan sem hún söng inn á.

Hér að framan eru nefndar nokkrar safnplötur sem Shady hefur komið við sögu á í gegnum tíðina en hér eru þó auðvitað ónefndar ótal safnplötur sem innihalda söng hennar með Hljómum og Trúbrot, þær skipta tugum að minnsta kosti enda eru margar þeirra lagasmíðar löngu orðnar sígildar.

Efni á plötum