Blúshátíð í Reykjavík 2022

Blúshátíð í Reykjavík verður haldin nú um páskana en hún hefur ekki farið fram síðan 2019 af óviðráðanlegum orsökum. Hátíðin verður með breyttu sniði í ár en einungis verða einir tónleikar í boði – miðvikudagskvöldið 13. apríl nk. (kvöldið fyrir skírdag) kl. 20, sannkölluð tónlistarveisla þar sem allir bestu blúsarar landsins koma fram á Hilton Reykjavík Nordica.

Söngkonurnar óviðjafnanlegu Andrea Gylfadóttir, Ragnheiður Gröndal og Stefanía Svavarsdóttir fremja blúsgaldur með Guðmundi Péturssyni, Halldóri Bragasyni, Óskari Loga Ágústssyni og Nick Jameson, þúsund þjala ólíkindatólinu Davíð Þór Jónssyni ásamt Róberti Þórhallssyni bassaleikara og trommuleikaranum taktfasta Ásgeiri Óskarsyni.

Á tónleikunum kemur einnig fram hljómsveitin Bláa höndin en hana skipa þeir Jakob Frímann Magnússon, Guðmundur Pétursson, Jón Ólafsson og Einar Scheving.
Eftir þessa mögnuðu íslensku blúsveislu verður Klúbbur Blúshátíðar starfræktur á Hilton Reykjavík Nordica. Þar heldur fjörið áfram fram eftir nóttu og ævintýri gerast þegar ólíkir tónlistarmenn hræra sannkallaðan blússeið.

Þá verður eins og venjulega blúsdagur í miðborginni við setningu Blúshátíðar í Reykjavík en laugardaginn 9. apríl leggur Blúshátíð Skólavörðustíginn undir sig. Skrúðganga verður frá Leifsstyttu kl. 14.00. Lúðrasveitin Svanur leikur nokkur lög og Krúser klúbburinn verður með glæsilega bílasýningu. Við setningu hátíðarinnar verður tilkynnt um val á heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíkur 2022. Boðið verður upp á lifandi blús á Skólavörðustígnum frá klukkan 14.00. Tónleikar verða á Borgarbókasafninu í Grófinni kl. 16.00.

Miðasala á Blúshátíð í Reykjavík 2022 fer fram á tix.is og er miðaverðið kr. 7.990.