Snafu (1999-2003)

Snafu

Hljómsveitin Snafu var töluvert áberandi í harðkjarnasenunni sem hér náði hámarki um og eftir síðustu aldamót. Sveitin þróaðist hratt á þeim tíma sem hún starfaði en svo virðist sem meðlimir hennar hafi ekki verið sáttir við þá stefnu sem hún hafði tekið í lokin og stofnuðu nýja sveit upp úr henni. Snafu sendi frá sér nokkuð af efni sem sýnir vel hvernig tónlist sveitarinnar tók breytingum og einnig liggur eftir hana óútgefin plata sem var tilbúin til útgáfu þegar hún hætti störfum.

Snafu var stofnuð í október 1999 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Gunnar Þór Jónsson bassaleikari, Eiður Steindórsson gítarleikari, Marteinn Davíð Jensen trommuleikari og Ingi Þór Pálsson gítarleikari, tónlistin sem sveitin lék og samdi skilgreindu þeir sem metalcore. Fljótlega eftir áramótin bættist söngvarinn Sigurður Alexander Oddsson í hópinn og mun hann hafa komið með nafn á sveitina en þá höfðu þeir tekið stefnu á Músíktilraunir Tónabæjar og ÍTR um vorið 2000.

Þátttakan í Músíktilraunum gafst vel því Snafu komst upp úr undanriðlinum þar sem þeir félagar þurftu að kljást við sveitir eins og Búdrýgindi og 110 Rottweiler hunda (síðar XXX Rottweiler), og reyndar gerði sveitin gott betur því hún hafnaði að endingu í öðru sæti tilraunanna á eftir 110 Rottweiler hundum sem varð þá fyrst rappsveita til að sigra keppnina, þá skaut Snafu sveitum eins og Diktu og Auxpan aftur fyrir sig í tilraununum.

Snafu lék heilmikið á tónleikum í kjölfar þessa góða árangurs í Músíktilraunum enda var heilmikil hardcore metalvakning í gangi á þessum tíma og mikið um tónleikahald þar sem sveitir á svipuðum stað í tónlistinni tóku höndum saman, oft voru slíkir tónleikar haldnir á vegum Hins hússins. Sveitin varð strax framarlega í þeirri vakningu og lék m.a. á tónlistarhátíðinni Ringulreið 2000 og um haustið á stórum rokktónleikum Unglistar sem haldnir voru uppi í Gufunesi undir yfirskriftinni Glundroði.

Snafu á Glundroða hátíðinni

Um haustið 2000 sendi Snafu frá sér skífuna Anger is not enough á vegum Harðkjarna og var um að ræða fyrstu „alvöru“ útgáfu útgáfunnar en hún var rekin af Valla Dordingli sem segja má að hafi haldið utan um þessa metalvakningu sem þarna var í gangi, Internetið var á þessum árum að springa út meðal almennings og varð þessi vakning mikið til á netinu sem menn nýttu til að miðla bæði tónlist og boðskapnum – meðlimir Snafu sögðu í því samhengi að sveitin hefði aldri orðið til nema vegna Internetsins. Platan var hljóðrituð í Grjótnámunni og voru hljóðverstímarnir hluti af verðlaunum frá Músíktilraunum. Platan var hljóðrituð „læf“ á fáeinum tímum og var átta laga en auk þeirra voru upptökur (sjö lög til viðbótar) frá tónleikum á Kakóbarnum í Geysishúsinu sem haldnir höfðu verið í október, og sýndu eldri upptökurnar frá því um sumarið og tónleikaupptökurnar frá því um haustið vel hvernig sveitin hafði þróast og breyst á ekki lengri tíma. Platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu og hjá Sigga pönk sem skrifaði dóm á Harðkjarna.is.

Snafu hafði á árinu 2000 vakið heilmikla athygli og varð platan meðal þeirra efstu í uppgjöri Morgunblaðsins um áramót, sveitin fylgdi þessari velgengni eftir með heilmikilli spilamennsku fram á vorið en heldur hægðist á því um sumarið – sveitin lék þó á rokktónleikum á bindindishátíðinni í Galtalæk um verslunamannahelgina 2001. Um haustið varð Snafu áberandi á nýjan leik og spilaði þá mikið og um veturinn, m.a. á Iceland Airwaves, á ýmsum harðkjarna tónleikum s.s. á vegum Hins hússins og á Stefnumóti Undirtóna, og þótti ómissandi þegar erlendar sveitir heimsóttu landið en slíkt gerðist ófáum sinnum á þessum árum. Og spilamennskan hélt áfram um sumarið 2002, þá léku þeir m.a. á götuhátíð Jafningjafræðslunnar og svo á Airwaves um haustið áður en sveitin tók sér frí frá tónleikahaldi yfir bláveturinn.

Um vorið 2002 hafði komið út sex laga splitplata á vegum Bastardized Recordings, sem Snafu deildi ásamt þýsku sveitinni Since the day, hvor sveit átti þar sex lög og enn hafði tónlist sveitarinnar tekið breytingum og þótti nú framsæknari en áður. Platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu og Harðkjarna.is.

Snafu

Snafu birtist aftur á tónleikasviðinu í mars 2003 eftir hafa haft hægt um sig um nokkurra mánaða skeið um veturinn, þá kynnti sveitin nýtt efni af væntanlegri breiðskífu sem þeir voru þá að vinna að, og hélt sú vinna áfram um vorið. Sveitin spilaði svo ekkert opinberlega fyrr en síðsumars og voru þá án Inga Þórs gítarleikara sem þá var að túra með I adapt en þá var jafnframt nýr trymbill genginn til liðs við Snafu, Brynjar Konráðsson í stað Martins.

Menn voru nú orðnir spenntir fyrir nýju plötunni sem væntanleg var um haustið undir merkjum Smekkleysu. Ekkert benti til annars en að hún kæmi út um svipað leyti og sveitin myndi spila á Airwaves, það gerðist þó ekki og eftir Airwaves-hátíðina spurðist ekki til Snafu meir. Hins vegar birtust þeir félagar Sigurður, Brynjar, Gunnar og Eiður næsta vor (2004) undir nafninu Future future sem stofnuð hafði verið upp úr Snafu – þeir sögðust þá í blaðaviðtali ekki hafa verið alls kostar ánægðir með plötuna haustið áður (sem var tilbúin til útgáfu), töldu sig ekki hafa þróast í þá átt sem þeir vildu og höfðu því stofnað hina nýju sveit í kjölfarið og tekið nýja stefnu með henni. Platan sem hafði hlotið titilinn Gytrash og var tíu laga kom því aldrei út en svo virðist sem eins konar útgáfa af henni hafi litið dagsins ljós og farið í dreifingu. Og þannig lauk sögu hljómsveitarinnar Snafu.

Efni á plötum