Afmælisbörn 1. apríl 2022

Hera Hjartardóttir

Þrjú tónlistartengd afmælisbörn eru skráð á þessum degi gabbanna.

Andri Hrannar Einarsson trommuleikari er fimmtíu og þriggja ára gamall í dag. Þekktasta hljómsveit Andra var klárlega Áttavillt (8 villt) en hann var einnig í sveitum eins og KFUM & the andskotans, Langbrók, Saga Class, Silfur og Noname. Andri er frá Siglufirði og þar hefur hann alið manninn síðustu árin, hefur annast dagskrárgerð í útvarpi og starfað í hljómsveitum þar í bæ.

Sigurður Dagbjartsson söngvari og gítarleikari er sextíu og þriggja ára gamall í dag. Sigurður hefur leikið með fjölmörgum hljómsveitum og er Upplyfting sjálfsagt þeirra þekktust en einnig má nefna sveitir eins og Babadú, KÓS, Ljósbrá, Maraþon, Pondus, Tónika, Kusk, Danssveitin, Karnival, Fiction og X-ist. Sigurður söng hið margfræga lag um Rabbarbara-Rúnu sem allir þekkja.

Að síðustu er hér nefnd Hera Hjartardóttir tónlistarkona sem er þrjátíu og níu ára gömul. Hera vakti fyrst athygli árið 1999 í Nýja Sjálandi þar sem hún hefur mest alla tíð búið, þegar hún sendi frá sér tólf laga plötuna Homemade aðeins tæplega sextán ára gömul en þá hafði hún komið fram í fjölmörg skipti þar í landi sem trúbador. Hún varð þó ekki þekkt hér á landi fyrr en árið 2001 þegar platan Not so sweet kom út en síðan þá hefur hún sent frá sér nokkrar plötur og kemur heim til Íslands reglulega til tónleikahalds.

Vissir þú að Kvenréttindafélag Íslands ávítti gamanvísna- og söngkonuna Soffíu Karlsdóttur fyrir vísur sem hún söng á 17. júní skemmtun 1954?