Afmælisbörn 27. júlí 2022

Haukur Heiðar Hauksson

Afmælisbörn dagsins í tónlistargeiranum eru þrjú að þessu sinni:

Keflvíkingurinn Baldur Þórir Guðmundsson er fimmtíu og átta ára gamall. Baldur (sonur Rúnars Júl. og Maríu Baldursdóttur) lék á hljómborð og ýmis önnur hljóðfæri með hljómsveitum á unglingsárum sínum s.s. Box, Kjarnorkublúsurunum, CTV og Pandóru en sneri sér síðar í auknum mæli að upptökufræðum enda var fjölskyldufyrirtækið Geimsteinn aldrei langt undan. Hann leikur þó reglulega inn á plötur samhliða upptökustörfum.

Læknirinn Haukur Heiðar Hauksson (sonur Hauks Heiðars píanóleikara) á stórafmæli dagsins en hann er fertugur í dag. Haukur er söngvari hljómsveitarinnar Diktu og leikur aukinheldur á píanó og gítar í sveitinni en hann hefur einnig sungið í hljómsveitum eins og Plug og Jesúítunum, og á plötu Helga Júlíusar. Haukur söng ennfremur lag í undankeppni Eurovision 2015 eins og margir e.t.v. muna.

Og að síðustu er hér nefndur tónlistarmaðurinn Ingólfur Sigurðsson sem iðulega kallar sig Insol en hann er fimmtíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Insol hefur gefið út á annan tug platna frá árinu 1998 og er lagið Hvenær mun hér á Íslandi rísa stjörnusambandsstöð? hans þekktasta til þessa.

Vissir þú að Lúðrasveit Þingeyrar lék í minningarathöfn á Hrafnseyri við Arnarfjörð í tilefni af aldarafmæli Jóns Sigurðssonar árið 1911?