Afmælisbörn 8. ágúst 2022

Sigrún Hjálmtýsdóttir

Þrjú afmælisbörn í tónlistargeiranum eru á lista Glatkistunnar að þessu sinni:

Sigrún Hjálmtýsdóttir eða bara Diddú á afmæli á þessum degi en hún er sextíu og sjö ára gömul. Diddu vakti fyrst athygli með Spilverki þjóðanna og Brunaliðinu en síðan varð sólóferillinn öðru yfirsterkara. Hún hefur sungið í fjölmörgum óperuuppfærslum og tónleikum af ýmsu tagi, allt frá léttu poppi til klassíkur auk þess að hafa sent frá sér fjöldann allan af plötum sjálf og í samstarfi við aðra.

Einar B. Waage kontrabassaleikari átti einnig þennan afmælisdag. Einar fæddist 1924, hóf snemma að leika með danshljómsveitum hér heima en eftir að hafa menntað sig í bassa- og fiðluleik m.a. í New York, lá hugur hans á aðrar slóðir, hann kenndi lengi á bassa og lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands og fleiri hljómsveitum, auk þess að láta sig félagsmál tónlistarmanna varða nokkuð hérlendis. Einar lést 1976.

Að endingu er hér nefndur Herbert H. Ágússson (Herbert Hriberschek) (1926-2017). Herbert kom hingað frá Austurríki um miðja síðustu öld, hann hafði lært á píanó, fiðlu og horn auk þess að hana numið tónsmíðar. Hér á landi starfaði hann lengi við tónlistarkennslu og skólastjórn tónlistarskóla en stjórnaði einnig fjölda kóra s.s. Kór kvennadeildar Slysavarnarfélags Íslands í Reykjavík, Karlakór Keflavíkur, Þjóðleikhúskórnum, Kvennakór Suðurnesja, Keflavíkurkvartettnum og Karlakórnum Þröstum, hann stjórnaði einnig Drengjalúðrasveit Keflavíkur.

Vissir þú að baritónsöngvarinn Ólafur Kjartan Sigurðarson er sonur Sigurðar Rúnars Jónssonar (Didda fiðlu) og þ.a.l. barnabarn Jóns Sigurðssonar bassa?