Stemmingstónlist [annað] (1974-)

Landslið Íslands í handknattleik við plötuupptökur 1974

Nokkur hefð er fyrir svokallaðri stemmingstónlist á Íslandi en til hennar flokkast sú tónlist sem samin er og flutt í tengslum við íþróttaviðburði og -félög. Henni má skipta gróflega í tvo undirflokka, tónlist tengt Íslandi og íslenskum landsliðum annars vegar, og tónlist tengd einstökum félagsliðum hins vegar. Fyrri flokkurinn hefur að geyma tónlist sem stundum nær almennri stemmingu landsmanna og má þar sérstaklega nefna landslið Íslands í handknattleik og knattspyrnu, til síðari flokksins telst tónlist sem tengist smærri stuðningshópum félagsliða og hér má nefna lagið Komum fagnandi sem Ívar Bjarklind gerði fyrir ÍBV, Áfram KA menn með Karli Örvarssyni og Við erum KR með Bubba Morthens og Gömlu brýnunum. Síðarnefndi flokkurinn hefur að geyma mun fleiri lög.

Athygli vekur að þessi tónlist er nánast eingöngu tengd boltaíþróttum og eru knattspyrna og handknattleikur því sem næst einráð þar, þó með örfáum undantekningum því að plötur hafa t.d. komið út í tengslum við Landsmót UMFÍ og afmælishátíð UÍA. Og annað er eftirtektarvert í þessu samhengi, stemmingstónlistin er nánast 100% helguð karlkyninu og liðum þeirra.

Á síðustu árum hefur útgáfa og dreifing tónlistar tekið miklum breytingum og því er mun auðveldara fyrir tónlistarfólk (og annað fólk) að búa til tónlist, þ.a.l. hefur stuðningslögum fjölgað mjög og segja má að hartnær flest félagslið eigi nú orðið stuðningslag hvort sem þau eru stödd í efstu deildum eða jafnvel utan deilda. Á móti kemur að mun erfiðara er að koma þeim á framfæri svo eftir verði tekið þrátt fyrir að aðgengið sé mun meira og betra en áður, líklega koma nokkur slík lög á markað ár hvert nú orðið en fæst þeirra hljóta brautargengi. Gamli smellurinn Ég er kominn heim hefur a.á.m. sérstöðu og hefur birst í ótal útgáfum og er e.t.v. hið eina sanna íslenska stuðningslag að minnsta kosti hvað landsliðið í knattspyrnu varðar og hefur orðið að sameiningartákni íslensku þjóðarinnar.

Íslensk landslið (1974-)

Fyrsta og elsta dæmið um stemmingstónlist er frá 1974 þegar Ómar Ragnarsson og landslið Íslands í handknattleik sungu inn á litla tveggja laga plötu til styrktar HSÍ en handknattleikslandsliðið keppti þá á Heimsmeistaramótinu í Austur-Þýskalandi. Lögin tvö nutu vinsælda og var annars vegar um að ræða hreint hvatningalag, Áfram Ísland sem liðsmenn landsliðsins sungu en hins vegar grínlag í anda Ómars, Lalli varamaður sem stal senunni og hafði m.a. að geyma ógleymanlega lýsingu á dramatískum handknattleik sem Ómar lýsti en hann gegndi stöðu íþróttafréttamanns um skeið. Hljómsveitin Hljómar lék undir í lögunum sem Ómar samdi sjálfur. Platan hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu en þarna var tónninn sleginn og síðan hafa fjölmargar slíkar plötur og lög komið út. Þess má geta að pönksveitin Blóð endurgerði Áfram Ísland árið 2009.

Aðstandendur handboltaplötunnar 1986

Haustið 1985 kom handboltalandsliðið aftur á sjónarsviðið með plötu en um var að ræða fjögurra laga skífu sem hafði að geyma tvö lög, sungin og ósungin. Landsliðsmennirnir sjálfir stóðu að þessari útgáfu undir merkinu Bogdan records og hún var ein fjáröflunarleiða fyrir HM í Sviss vorið 1986. Jón Ólafsson hafði yfirumsjón með verkinu en hann samdi lögin og útsetti, textarnir voru eftir Helga Má Barðason. Lögin nutu mikilla vinsælda og sköpuðu mikla stemmingu meðal fólksins í landinu.

1988 blés handknattleikslandsliðið enn til sóknar fyrir Ólympíuleikana í Suður-Kóreu sem haldnir voru þá um sumarið. Tólf tommu plata sem hafði að geyma lagið Gerum okkar besta (í þremur útgáfum) kom út og varð feikilega vinsæl en Valgeir Guðjónsson aðalsöngvari lagsins (og höfundur þess) og Þórhallur (Laddi) Sigurðsson í gervi Bjarna Fel. áttu ekki síst þátt í þeim vinsældum, en landsliðið sjálft söng viðlagið. Þrátt fyrir vinsældir lagsins seldist platan ekki vel. Tuttugu árum eftir útgáfu hennar var reyndar opinberað að upptökurnar með söng landsliðsmannanna hefðu ekki verið nothæfar af einhverjum ástæðum og því hefði einn hljóðupptökumannanna, Ásgeir Jónsson (söngvari Baraflokksins) sungið ofan í kórinn og verið þannig tíu til tólf manna maki í honum.

Árið 1995 var svo Heimsmeistaramótið í handknattleik haldið hér á landi og af því tilefni var gefið út lag á smáskífu sem bar heitið Bræðralag / Song of brotherhood, flutt af Björgvini Halldórssyni og Diddú – ekki var þó um að ræða stuðningslag í þeim skilningi sem hér er fjallað um.

Síðustu árin hefur minna farið fyrir lögum til stuðnings handboltastrákunum en hljómsveitin Ég (Róbert Örn Hjálmtýsson) hefur þó sent frá sér slíkt lag, handboltinn hefur þannig vikið fyrir fótboltanum. Það var þó ekki fyrr en eftir aldamót sem knattspyrnan komst á blað en stuðningslag tengt landsliðinu leit þá dagsins ljós árið 2002, það var lagið Áfram Ísland sem var svo endurgert fyrir EM í knattspyrnu 2016 þegar Ísland komst fyrst á stórmót – báðar útgáfurnar voru sungnar af nokkrum af skærustu poppstjörnum landsins á hvorum tíma.

Síðustu árin hafa nokkur slík lög verið samin og gefin út ýmist af þekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum eins og Baggalúti, Kajak og Samúel J. Samúelssyni en einnig sem eins konar samstarfsverkefni t.d. nokkurra tónlistarmanna sem sungu lagið Syngjum áfram Ísland, og Magna Ásgeirssonar og Tólfunnar sem fluttu lagið Við erum Tólfan, einkum á árunum 2016 til 2018 þegar karlalandsliðinu gekk sem best og komst í lokakeppni Evrópu- og Heimsmeistaramótanna. Þrátt fyrir að kvennalandsliðið hafi í nokkur skipti komist á slík stórmót hefur aðeins í eitt skipti þótt ástæða að tileinka þeim slíkt stemmingslag, það var Þórður Helgi Þórðarson (Love Guru) sem það gerði árið 2017 með laginu Stelpurnar eru Bestar.

Félagslið (1976-)

Árið 1976 kom út plata með Skagakvartettnum undir titlinum Kátir voru karlar, sú plata naut nokkurra vinsælda í þá fremur bragðdaufri plötuútgáfu á landinu og á henni var að finna lagið Skagamenn skoruðu mörkin sem er án nokkurs vafa fyrsta útgefna stuðningslag félagsliðs hérlendis, það lag var þó aðeins eitt af tólf lögum plötunnar. Þremur árum síðar kom hins vegar út fyrsta útgefna stuðningsplatan, smáskífan Áfram KR / Mörk – sungin af Árna Sigurðssyni (söngvara Deildarbungubræðra) en hann samdi jafnframt lögin.

Smáskífa KR-inga 1979

Valsmenn voru næstir í röðinni en þegar félagið fagnaði 70 ára afmæli árið 1981 kom út fjögurra laga tólf tommu platan Valsmenn léttir í lund, á þeirri plötu má m.a. heyra lagið Litla flugan (eftir Sigfús Halldórsson) sem Björgvin Halldórsson syngur en sú útgáfa hefur fyrir löngu orðið sígild, önnur lög plötunnar eru stemmingslög að hætti hússins.

Fleiri fylgdu í kjölfarið, Breiðablik gaf út fjögurra laga kassettu árið 1991 þar sem undarleg blanda Ríó tríósins og hljómsveitarinnar Glott (sem voru í raun Fræbbblarnir) sá um tónlistina. Og þannig mætti áfram telja, FH-bandið, Þróttarar, ÍBK, KR aftur, Framarar (þar sem Bjarni Fel syngur sem gestur) og Grindvíkingar gáfu út geisladiska og kassettur áður en öldin var úti og Karl Örvarsson sendi frá sér slagara, Áfram KA sem naut töluverðra vinsælda en kom líklega ekki út á plötu fyrr en safnplatan Alltaf í boltanum kom út árið 2003 – á þeirri plötu mátti heyra gömul og ný stuðningslög liða sem það sumar voru í Landsbankadeildinni eins og efsta deild var þá kölluð. Þar var einnig að finna lagið Komum fagnandi sem Eyjamaðurinn Ívar Bjarklind flutti en það lag var töluvert vinsælt og er enn leikið í tengslum við þjóðhátíð í Eyjum.

Á nýrri öld hefur með betri tækni bæst verulega við hóp stuðningslaga félagsliða og fjölmörg félög í neðri deildunum hafa sent frá sér slíka slagara þótt fæst þeirra laga hafi komið út á efnislegu formi. Hér er knattspyrnan nær eingöngu til umræðu en þó hafa komið út lög og plötur tengd körfu- og handknattleik félagsliða einnig, þannig gaf hljómsveitin Pass t.a.m. út plötu til styrktar körfuknattleiksdeild Hamars í Hveragerði með slíkri tónlist, Joe Gæ band gaf út svipaða plötu til stuðnings Snæfelli í Stykkishólmi og fleiri slík dæmi væri hægt að nefna. Ýmsir stuðningshópar tengdir félögunum hafa komið við sögu slíkra stemmingslaga, Valskórinn, Köttarar, Gæs, KR-bandið, Hafnarfjarðarmafían og Hoffman eru dæmi um slíkt.

Fjölmargar plötur hafa því komið út í þessum flokki tónlistar en stök lög er einnig að finna á annars konar plötum s.s. safnplötum af ýmsu tagi og sem smáskífur á tónlistarveitum.

Efni á plötum