Afmælisbörn 2. október 2022

Sigtryggur Baldursson

Afmælisbörn dagsins eru fimm í dag, meirihluti þeirra eru trommuleikarar:

Birgir Baldursson trommuleikari er fimmtíu og níu ára gamall. Birgir hefur leikið með ógrynni hljómsveita þar sem fjölbreytileikinn er í fyrirrúmi og hann er án efa sá trommuleikari sem leikið hefur með flestum sveitum hérlendis, hér eru einungis fáein sýnishorn: S.H. draumur, Stífgrím, Hitchcock, Jónatan Livingstone kría, Sálin hans Jóns míns, Blúsboltarnir, Bundið slitlag, DBD, Gakk, Helmut, Svefngalsar, Bless, Belfigor, Danshljómsveit Íslands og Craftblock.

Annar trommuleikari, Sigtryggur Baldursson á afmæli en á stórafmæli og er sextugur. Hann er auðvitað þekktastur fyrir aukasjálf sitt, Bogomil Font og hefur starfrækt Milljónamæringana samhliða því en hann er einnig kunnur fyrir veru sína í Sykurmolunum (Sugarcubes), Þeyr, Kukl, Algorythmunum, DIP, Grindverki, Hattímas, Steintryggi og fleiri sveitum. Sigtryggur hefur verið ötull talsmaður fyrir réttindum og félagsmálum tónlistarmanna undanfarin ár.

Þriðji trommuleikarinn, Eysteinn Eysteinsson, á afmæli í dag en hann er fjörutíu og sex ára gamall á þessum degi. Eysteinn hefur leikið með fjölda hljómsveita og á mörgum plötum annarra tónlistarmanna, meðal sveita hans má nefna Not correct, Buff, Partýtertuna, Taktík, Vestanáttina, Yrju og Papa, svo fátt eitt sé upp talið.

Tónlistarmaðurinn Jóhannes Damian Patreksson er tuttugu og tveggja ára gamall á þessum degi en hann gengur yfirleitt undir nafninu JóiPé og er þekktastur sem annar meðlimur dúósins JóiPé & Króli sem hafa sent frá sér nokkrar plötur þrátt fyrir ungan aldur. Meðal vinsælustu laga þeirra má nefna B.O.B.A., Í átt að tunglinu, Tveir koddar og Óska mér svo nokkur dæmi séu nefnd. JóiPé hefur starfað með fjölmörgum öðrum tónlistarmönnum.

José Riba fiðluleikari (1907-95) átti ennfremur afmæli þennan dag. Hann fluttist til Íslands frá Spáni um miðja öldina og varð virkur í íslensku tónlistarlífi, hann kenndi tónlist, starfaði með Sinfóníuhljómsveit Íslands og starfrækti eigin hljómsveitir um árabil. Riba fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1956 og tók sér þá nafnið Ólafur Jósef Pétursson.

Vissir þú að djassklúbburinn Múlinn hefur verið starfandi síðan 1997?