Stúlknakór Gagnfræðaskólans á Selfossi (1959-83)

Stúlknakór Gagnfræðaskólans á Selfossi á tröppum Selfosskirkju vorið 1968

Stúlknakór Gagnfræðaskólans á Selfossi varð landsfrægur þegar hann sendi frá sér plötu árið 1968 en kórinn starfaði í um aldarfjórðung við góðan orðstír.

Það var Eyrbekkingurinn Jón Ingi Sigurmundsson söngkennari sem stofnaði Stúlknakór Gagnfræðaskóla Selfoss árið 1959 (frekar en 1958) en kórinn skipaði yfirleitt um fjörutíu stúlkur á unglingsaldri, kórinn gekk einnig stundum undir nafninu Kór eða Skólakór Gagnfræðaskólans á Selfossi en hann var þó alltaf eingöngu skipaður stúlkum.

Kórinn hafði starfað um nokkurra ára skeið á Selfossi og sungið á ýmsum skemmtunum innan skólans en einnig t.a.m. á landsmóti UMFÍ sem haldið var á Laugarvatni sumarið 1965 þegar hann varð landsfrægur svo að segja í einni andrá en það var í jóladagskrá nýstofnaðs Ríkissjónvarps haustið 1966 þar sem kórinn kom fram. Kórinn kom svo aftur fram í Stundinni okkar um vorið 1967 og margoft síðar í útvarpi, svo hann varð í raun nokkuð þekktur út frá því.

Haustið 1968 út á vegum Hljómplötuútgáfunnar fimmtán laga plata með kórnum en hún bar einfaldlega nafnið Stúlknakór Gagnfræðaskólans á Selfossi og hafði verið hljóðrituð í Selfosskirkju um vorið af Jóni Þóri Hannessyni. Platan var tvískipt, á A-hliðinni var að finna íslensk og erlend kórlög úr ýmsum áttum en B-hliðin hafði að geyma erlend jólalög við íslenska texta Hinriks Bjarnasonar. Þeirra á meðal voru lögin um Snæfinn snjókarl og Ég sá mömmu kyssa jólasvein sem þarna komu fyrir sjónir almennings í fyrsta sinn og því má segja að platan hafi að þessu leyti verið tímamótaverk í íslenskri tónlist. Það var píanóleikarinn Gísli Magnússon sem annaðist undirleik á A-hliðinni en hljómsveit Óskars Guðmundssonar á Selfossi lék undir í jólalögunum, það eru einu sýnishornin frá þeirri þekktu dansleikjasveit sem fest hafa verið á vínyl. Fjögur jólalaganna sjö voru svo endurútgefin á smáskífu sem SG-hljómplötur gáfu út haustið 1973 – og þess má geta að sú skífa varð síðasta litla jólaplatan sem gefin sem gefin var út á vínyl á Íslandi þar til Sigurður Guðmundsson og Memfismafían gaf út slíka plötu árið 2009.

Stúlknakór Selfosskirkju 1979

Stúlknakór Gagnfræðaskólans á Selfossi starfaði áfram við góðan orðstír, kom oft fram í útvarpi og sjónvarpi auk þess að syngja á tónleikum sem mest voru þó í heimabyggð og nágrenni, og tónskáldið dr. Hallgrímur Helgason samdi m.a.s. tónverk sérstaklega fyrir stúlkurnar sem kórinn flutti á tónleikum. Kórinn varð þó ekki viðlíka áberandi og hann hafði verið á árunum í kringum plötuútgáfuna og fyrstu ár Sjónvarpsins en jólalögin eru enn reglulega leikin á útvarpsstöðvum landsins enda hafa þau fyrir löngu orðið sígild í meðförum kórsins.

Stúlknakór Gagnfræðaskólans á Selfossi starfaði til ársins 1983 en það sama ár stofnaði Jón Ingi stjórnandi Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og stjórnaði honum lengi vel einnig.

Efni á plötum