Afmælisbörn 18. desember 2022

Jósef Magnússon

Í dag eru tvö nöfn á afmælislista Glatkistunnar

Það er Sigurlaug Thorarensen sem einnig gengur undir sólólistanafninu Sillus en hún er þrjátíu og tveggja ára gömul á þessum degi. Hún hefur gefið út tilraunakennt raftónlistarefni og unnið tónlist fyrir sjónvarp en einnig starfað með hljómsveitinni BSÍ á plötu sem og starfað með öðru tónlistarfólki s.s. Hermigervli, sem reyndar er bróðir hennar.

Jósef Gottfreð Blöndal Magnússon flautuleikari átti einnig afmæli þennan dag en hann lést árið 2021. Jósef (f. 1933) sem var giftur Ruth L. Magnússon söngkonu, nam í London og fékkst lengi við tónlistarkennslu en lék jafnframt oft einleik á tónleikum m.a. með Musica da camera og Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hann starfaði lengi með. Hann kom aukinheldur við sögu á fjölda hljómplatna sem bæði höfðu að geyma klassíska tónlist og af léttara taginu.

Vissir þú að Litla flugan eftir Sigfús Halldórsson var fyrst flutt opinberlega á jólaballi fyrir börn í Reykholti í Borgarfirðinum fyrir jólin 1951?