Afmælisbörn 26. desember 2022

Þórarinn Freysson

Á þessum öðrum degi jóla er að finna tvö afmælisbörn tengd íslenskri tónlist:

Trausti Júlíusson blaðamaður, plötugrúskari og tónlistargagnrýnandi er fimmtíu og níu ára gamall í dag. Trausti hefur fjallað um tónlist frá ýmsum hliðum og setið í ýmsum ráðum og nefndum tengdum íslenskri tónlist s.s. tónlistarsjóði Kraums. Trausti hefur ennfremur leikið með hljómsveitum eins og Vídeósílunum, Ást og Stunu úr fornbókaverslun.

Þá á Þórarinn Freysson bassaleikari hljómsveitarinnar Sixties einnig afmæli á þessum degi en hann fagnar fjörutíu og níu ára afmælisdegi sínum. Þórarinn hefur leikið inn á fjölda platna með Sixties en á yngri árum sínum lék hann með sveitum sem spiluðu öllu harðari tónlist, meðal þeirra má nefna In Memoriam, Mortuary og Bone China en auk þess hefur hann leikið á bassa með sveitum eins og Kinkí og T-Vertigo.

Vissir þú að Haukur Morthens gaf út tveggja laga plötu með lögunum Hvít jól (White christmas) og Jólaklukkur (Jingle bells) árið 1954?