Sumartónleikar á Norðurlandi [tónlistarviðburður] (1987-98)

Tónleikaröðin Sumartónleikar á Norðurlandi var haldin um tólf ára skeið í kirkjum um norðanvert landið og reyndar má segja að hátíðin lifi enn góðu lífi þótt hún sé nú eingöngu bundin við Akureyri undir nafninu Sumartónleikar í Akureyrarkirkju.

Upphaf Sumartónleika á Norðurlandi má rekja til ársins 1987 þegar þau Björn Steinar Sólbergsson organisti á Akureyri og Margrét Bóasdóttir sem þá starfaði í Þingeyjarsýslum settu hátíðina á laggirnar en þau höfðu þá bæði kynnst þess konar tónleikaraðaformi erlendis þegar þau höfðu verið við nám. Fyrstu sumrin voru tónleikar haldnir í Akureyrar-, Húsavíkur- og Reykjahlíðarkirkjum og var aðgangur ókeypis á þá en þess í stað lögðu sóknarnefndir kirknanna og fyrirtæki til fjármagn og einnig voru frjáls framlög vel þegin við kirkjudyrnar en um var að ræða tónleika með svokallaða klassíska tónlist.

Þetta tónleikaform þótti gefast vel og smám saman bættust fleiri kirkjur í hópinn og þegar mest var voru tónleikar haldnir í átta kirkjum víðs vegar um norðanvert landið, allt úr Skagafirðinum og austur á Melrakkasléttu, hér má nefna Hóla í Hjaltadal, Raufarhafnar-, Snartastaða- og Dalvíkurkirkju. Yfirleitt var um klukkustundar langa tónleika að ræða og fóru þeir fram á fimm vikna tímabili frá því í byrjun júlí og fram í ágúst – og slagaði hátt í tuttugu tónleika yfir sumarið þegar mest var. Mæting á tónleikana var ágæt og skiptist nokkur jafnt milli heimamanna og ferðamanna en tilgangur tónleikaraðarinnar var einmitt að bjóða upp á eitthvað meira og annað en íslenska náttúru fyrir ferðamenn.

Þegar Margrét Bóasdóttir fluttist suður til Reykjavíkur færðist skipulagsvinnan einkum á Björn Steinar en eiginkona hans, Hrefna Harðardóttir gegndi einnig stöðu framkvæmdastjóra tónleikaraðarinnar og með tímanum færðist vinnan nokkuð yfir á staðarhaldara á hverjum stað, sem þá einnig öfluðu fjármagns í heimabyggð sinni. Árið 1999 var hátíðin þó sett endanlega niður á Akureyri þar sem þau Björn og Hrefna bjuggu og eftir það hefur sumartónleikaröðin gengið undir nafninu Sumartónleikar í Akureyrarkirkju en vissulega hafði Akureyrarkirkja verið ein þeirra kirkna sem tónleikar höfðu verið haldnir.

Í umfjöllunum um hátíðina má sjá að um fjögur hundruð listamenn, bæði íslenskir og erlendir, hafi komið fram á um tæplega tvö hundruð tónleikum og flutt tónlist fyrir á annan tug þúsunda áhorfenda sem sýnir svart á hvítu hversu mikilvægt þetta starf var (og er) fyrir tónleikahald á landsbyggðinni. Þó svo að tónleikaröðin hafi hætt undir þessu nafni má geta að slíkir tónleikar eru enn haldnir t.d. við Mývatn undir nafninu Sumartónleikar við Mývatn, og líklega einnig víðar fyrir norðan.