
Arnar Sigurbjörnsson
Í dag eru fimm afmælisbörn úr hópi íslensks tónlistarfólks skráð hjá Glatkistunni:
Arnar Sigurbjörnsson gítarleikari er sjötíu og fjögurra ára gamall í dag, hann var einkum áberandi í poppsenunni á áttunda áratug síðustu aldar. Arnar lék með hljómsveitum eins og Brimkló, Mexíkó, Strengjum, Ævintýri, Toxic, Action og Flowers, og söng stundum líka með sveitum sínum. Hann hefur jafnframt leikið inn á fjölda platna.
Guðjón Rudolf Guðmundsson er sextíu og fjögurra ára gamall í dag en hann er auvitað þekktastur fyrir lagið um Húfuna. Guðjón Rudolf sem hefur verið búsettur í Danmörku til fjölda ára hefur starfað með fjölda hljómsveita þar og hér heima, Fivebellies, Dularfulla stjarnan, Krauka, Inferno 5, Kíkóte vindmyllurnar og Sköllótta tromman eru meðal þeirra sveita en einnig kallaði hann sig hér áður Guðjón bak við tjöldin. Hann hefur gefið út nokkrar sólóplötur.
Jóhanna G. Erlingsson (1932-2020) átti afmæli þennan dag en hún var einkum þekkt sem textahöfundur. Hún samdi fjölda þekktra dægurlagatexta hér á árum áður og þekktastur þeirra texta er vafalaust Jólin alls staðar, einnig má nefna Þín innsta þrá, Ljósanna hátíð, Ég einskis barn er, Það er svo ótal margt, Hafið lokkar og laðar, Jólasnjór og Kenn þú mér, Kristur.
Jón Eðvarð Hjaltason trompetleikari (f. 1948) áti einnig afmæli á þessum degi, hann nam hljóðfæraleik hér heima og í Englandi og að námi loknu lék hann með fjölmörgum stærri hljómsveitum hér heima s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómsveit Íslensku óperunnar, Hljómsveit Þjóðleikhússins og Íslensku hljómsveitinni. Þá stofnaði hann Skólahljómsveit Grafarvogs og stjórnaði henni um tíu ára skeið. Jón lést árið 2013.
Þá er hér að síðustu nefndur sellóleikarinn Gunnar Kvaran en hann er sjötíu og níu ára gamall á þessum degi. Gunnar nam tónlist hér heima og í Danmörku og þar í landi var hann við kennslu um tíma áður en hann sneri aftur heim, hann hefur haldið fjölda tónleika víða um heim og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Mikill fjöldi platna hefur komið út með sellóleik Gunnars, bæði með honum einum og í félagi með öðru tónlistarfólki.
Vissir þú að Bragi Hlíðberg harmonikkuleikari var á fimmtánda ári þegar hann bókaði Gamla bíó og hélt þar einleikstónleika?