
Ási í Bæ
Glatkistan hefur í dag að geyma þrjú afmælisbörn úr tónlistargeiranum:
Helgi Hermannsson gítarleikari og söngvari frá Vestmannaeyjum er sjötíu og fimm ára gamall í dag. Helgi starfaði með ýmsum hljómsveitum í Vestmannaeyjum hér fyrrum og síðar einnig uppi á landi en meðal þeirra má nefna Bobba, Loga, Hljómsveit Gissurar Geirs, Skugga og Víkingasveitina. Þá hefur hann komið við sögu á plötum sem hafa að geyma Eyjatengd lög og á plötum Gísla Helgasonar, Lýðs Ægissonar og fleiri.
Eggert Hilmarsson bassaleikari frá Húsavík á afmæli í dag en hann fagnar fimmtíu og eins árs afmæli. Eggert hefur leikið á bassa og gítar með fjölda hljómsveita eins og Ljótu hálfvitunum, Rotþrónni, Indigo, Blóðmör, Birtunni hinumegin, Ðe Senjorita swingband, Smaladrengjunum úr Neðra Koti, Kusu, Niður og Innvortis svo dæmi séu nefnd en einnig komið að leikhústónlist.
Ástgeir Ólafsson (Ási í Bæ) hefði átt afmæli á þessum degi. Ási (1914-85) sýndi ungur hæfileika til að spila á ýmis hljóðfæri, lærði á þau nokkur og hóf að semja lög og texta. Mörg þeirra hafa löngu síðan öðlast sess sem sígild lög, kennd við Vestmannaeyjar þar sem hann bjó. Hann samdi fjölmörg þjóðhátíðarlög og aðrar lagasmíðar sem aðrir hafa flutt en einnig komu út plötur með honum sjálfum. Meðal laga og texta Ása má nefna Ég veit þú kemur, Gamla gatan, Sólbrúnir vangar og Göllavísur.
Vissir þú að samstarf Sigur rósar og Steindórs Andersen kvæðamanns hófst í sjónvarpsþættinum Stutt í spunann?