Bakkus [3] (1995-2000)

Hljómsveit sem bar nafnið Bakkus starfaði á Djúpavogi undir lok síðustu aldar en sveitin lék víða um austanvert landið.

Bakkus var stofnuð árið 1995 og voru meðlimir sveitarinnar þeir Daníel Arason harmonikkuleikari, Kristján Ingimarsson gítarleikari og Guðmundur Gunnlaugsson bassaleikari, þremenningarnir skiptu með sér söngnum.

Tríóið lagði mesta áherslu á írska þjóðlagatónlist, bæði með enskum og íslenskum textum en einnig fengu nokkur lög með textum eftir Kristján gítarleikara að fljóta með.

Bakkus lék mestmegnis á pöbbum þar sem slík tónlist nýtur sín best en sveitin lék einnig af og til einnig á dansleikjum og hafði þá sér til fulltingis gestatrommuleikara. Tríóið lék eðli málsins samkvæmt mikið á Djúpavogi og nágrannabyggðalögum en einnig mun víðar um Austurland.