Chorus [1] (1984)

Hljómsveitin Chorus var starfandi í Álftamýrarskóla um miðjan níunda áratug síðustu aldar en innan hennar voru ungir meðlimir sem síðar urðu þekktir tónlistarmenn. Saga sveitarinnar hlaut snöggan endi.

Meðlimir sveitarinnar voru þeir Daníel Ágúst Haraldsson söngvari, Bergur Bernburg hljómborðsleikari, Hermann Jónsson bassaleikari, Ingólfur Sigurðsson trommuleikari og Kolbeinn Einarsson gítarleikari. Ekki liggur fyrir hvenær Chorus var stofnuð eða hversu lengi hún starfaði en árið 1984 lék sveitin á einhvers konar grunnskólahátíð sem haldin var í Laugardalshöll og hætti störfum má segja á sviðinu fyrir framan tvö þúsund manns þegar ágreiningur varð innan sveitarinnar hver ætti að bera einhver eftirsóknarverð sólgleraugu eftir því sem meðlimir hennar sögðu síðar frá í viðtali.

Daníel Ágúst og Bergur voru síðar meðal stofnenda hljómsveitarinnar Nýdanskrar og sá fyrrnefndi er reyndar með þekktari tónlistarmönnum þjóðarinnar eins og Ingólfur sem hefur starfað með þekktum sveitum eins og SSSól, Greifunum og mörgum fleirum, hann stofnaði síðar Rauða fleti ásamt Kolbeini og Hermanni.