
Hjálmar Guðnason
Hjálmar Guðnason trompetleikari var mikilvægur póstur í tónlistarlífi Vestmannaeyinga en auk þess að vera trompetleikari kenndi hann tónlist og stjórnaði lúðrasveitum í Eyjum, þá var hann einnig virkur í samfélagi Betel safnaðarins og stýrði þar margs konar söngstarfi auk annars.
Hjálmar var fæddur í Vestmannaeyjum haustið 1940 og bjó þar alla ævi, fyrst á Vegamótum frá fæðingu og fram að gosinu í Heimaey 1973 en eftir það á Hóli. Hann lærði ungur á trompet hjá Oddgeiri Kristjánssyni en síðar lítillega einnig hjá Jóni Sigurðssyni trompetleikara, að öðru leyti var hann sjálfmenntaður í tónlistinni.
Hann lék á unglingsárum sínum í lúðrasveit gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum en hóf svo sjálfur að kenna við tónlistarskólann í Eyjum um tíma um miðjan sjöunda áratuginn og svo aftur árið 1977 og allt til dauðadags, þar kenndi hann á blásturshljóðfæri og endurreisti lúðrasveit innan skólans en starfsemi slíkrar sveitar hafði þá legið niðri um árabil. Hann stjórnaði henni í áratugi og fór m.a. með hana margsinnis til tónleikahalds bæði uppi á meginlandinu og erlendis, hún gekk iðulega undir nafninu Litla lúðrasveitin. Einnig var hann tímabundið skólastjóri tónlistarskólans. Áður en Hjálmar hóf tónlistarkennslu hafði hann starfaði sem loftskeytamaður en síðar rak hann ferðaþjónustubátinn Bravó í félagi við annan en í þeim ferðum var oft og iðulega siglt inn í helliskútana undir berginu sem eru víða um Eyjarnar, og þar blés hann í trompetið fyrir ferðamennina enda eru þar kjöraðstæður til slíks tónleikahalds.

Hjálmar Guðnason 2004
Hjálmar var þó fyrst og fremst sjálfur trompetleikari og tók virkan þátt í tónlistarstarfinu í Eyjum sem slíkur, hann þótti með fremstu trompetleikurunum landsins, kom oft fram á tónleikum og lék einleik á hljóðfærið en hann var t.a.m. ómissandi þáttur á dagskrár þjóðhátíðarinnar í Eyjum. Einnig starfaði hann um árabil með Lúðrasveit Vestmannaeyja og reyndar einnig um tíma með dans- og dixielandhljómsveit sem starfaði innan sveitarinnar, en jafnframt stjórnaði hann Lúðrasveit Vestmannaeyja sjálfur um ríflega áratugar skeið.
Hjálmari hafði þótt sopinn góður en árið 1976 sagði hann skilið við Bakkus og ári síðar frelsaðist hann og gekk til liðs við hvítasunnusöfnuðinn Betel í Vestmannaeyjum og var virkur félagi í því trúarstarfi allt til dauðadags, þar var hann jafnframt öflugur í tónlistarstarfinu innan safnaðarins, lék þar bæði á trompetið við ýmis tækifæri en stjórnaði þar líka margs konar söngstarfi, stjórnaði kórum fólks á öllum aldri. Hann lék einnig inn á nokkrar plötur sem flestar tengdust því kristilega starfi, s.s. á plötunum Opið bréf til þín og á gospelplötu Fíladelfíu, áður hafði hann einnig leikið á plötu Samkórs Vestmannaeyja.
Hjálmar Guðnason lést snemma árs 2006, á sextugasta og sjötta aldursári. Haldnir voru minningartónleikar um hann um vorið þar sem margir af samferðarmönnum hans og nemendum heiðruðu minningu hans með hljóðfæraleik en um fimmtíu manns komu fram á þeim tónleikum.














































