Karl faðir minn
(Lag / texti: Bjarni Hjartarson / Jóhannes úr Kötlum)
Hann pabbi er skrýtinn og sköllóttur karl
sem á skinnhúfu og tekur í nefið.
Og bleksterkt kaffi og brennivín
er það besta sem honum er gefið.
Hann þvær sér ekki oft – og aldrei vel
og er líka sjaldan á fundum.
Það er eins og hann geti ekki að því gert
hvað óhreint hans skegg er stundum.
Hann snýtti sér síðast á gólfið í gær,
það var góður og hentugur staður
og hnerraði og bað guð að hjálpa sér
eins og hákristinn dánumaður.
En annars minnist hann aldrei á guð
og er alveg hættur að lesa.
Og Pétur biskup, þann kunna klerk
hann kallar nú bara Pésa.
Hann lítur nú aldrei í aðra bók
en ærtalið, bögglað og rotið.
Þá setur hann gleraugun gömlu á sitt nef
og grínir með andakt á krotið.
Hann brýtur ei heilann um gátur né geim
en gengur að mokstri eða slætti.
Hann er einfaldur bóndi sem bítur á jaxl
og baslar af öllum mætti.
Þó talar hann stundum við sjálfan sig
eins og sál hans sé af sér gengin
og hristir þá undrandi höfuðið
en hvers vegna – skilur enginn.
[á plötunni Bjarni Hjartarson – Við sem heima sitjum]














































