Ingólfur Sveinsson (1914-2004)

ingolfur-sveinsson

Ingólfur Sveinsson

Ingólfur Sveinsson lögregluþjónn (f. 1914) var kannski ekki tónlistarmaður í eiginlegum skilningi en hann kom þó að íslenskri tónlist með ýmsum hætti.

Ingólfur, sem var faðir Rósu Ingólfsdóttur tónlistarkonu, þulu, teiknara, leikara o.fl., var tónskáld og samdi nokkur þeirra laga við íslenskar þjóðvísur sem komu út á plötu Rósu 1972, fleiri lög útgefin á plötum komu út eftir hann og m.a. samdi hann lagið Reykjavíkurdætur sem Elly Vilhjálms flutti og gerði frægt á sínum tíma, einnig má nefna einsönglög sem flutt hafa verið í útvarpi en óljóst er um útgáfu þeirra.

En Ingólfur var einnig ljóðskáld og birtust ljóð eftir hann í dagblöðum, auk þess sem ljóðabók kom út með ljóðum hans. Ekki liggur þó fyrir hvort ljóðin hafi verið mátuð við lög hans eða annarra tónskálda.

Hann var ennfremur söngmaður og söng með Lögreglukórnum.

Ingólfur lést 2004 níutíu og eins árs gamall.