Samkór Neskaupstaðar [1] (1945-57)

samkor-neskaupstadar-1952

Samkór Neskaupstaðar 1952

Samkór var starfandi á Norðfirði í ríflega áratug á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar.

Það var Magnús Guðmundsson kennari á Neskaupstað sem hafði frumkvæði að stofnun kórsins vorið 1945 en hann hlaut nafnið Samkór Neskaupstaðar og söng fyrst opinberlega á verkalýðssamkomu þann 1. maí eða einungis tveimur vikum eftir að hann hóf æfingar.

Kórmeðlimir komu úr kirkjukórnum á staðnum auk Lýðveldiskórsins sem hafði verið starfandi á Norðfirði en var þarna í raun hættur störfum. Í upphafi voru meðlimir kórsins um tuttugu talsins en þeim fjölgaði nokkuð og urðu flestir um fimm tugir.

Magnús varð sjálfur stjórnandi Samkórs Neskaupstaðar og stýrði kórnum allt til 1957 en Magnús hafði þá átt við vanheilsu að stríða um tíma. Á starfstímanum söng kórinn á tónleikum víða um austan- og norðanvert landið en einnig voru einhverjar upptökur gerðar með kórnum, um tíu lög voru að minnsta kosti tekin upp á band 1952 en hafa hvergi verið útgefin.

Samkór Neskaupstaðar varð aðili að Landssambandi blandaðra kóra.