Í Eyjum

Í Eyjum
(Lag / texti: erlent lag / Örn Arnarson)

Manstu okkar fyrsta fund
forðum daga í Eyjum.
Barnaleg og blíð í lund
barstu af öðrum meyjum.
Ég var ungur eins og þú,
einn af þorpsins snáðum.
Sama von og sama trú,
sama þrá hjá báðum.
Bernskuleikir breyttust þá,
blóm úr knöppum sprungu.
Nýjum lit á lífið brá,
lærðum nýja tungu.
Allt var gott og allt var nýtt
og yndislegt og frítt.

viðlag
Og sumarsólin skein
á sundin blá
og út við unnarstein
lék aldan smá.
Og ástin helg og hrein
lét hjörtun slá
og sumarsólin skein
á sundin blá.

Manstu hvað ég með þér fór
marga skemmtigöngu
inn í Dal og upp í Kór,
undir Stóru-Löngu.
Upp að Hvíld og Löngulág
lágu stundum sporin.
Kannast þú við Klif og Há,
komstu þar á vorin?
Inn um Flatir oft var kátt,
æskan fór með völdin.
Hlaupið, leikið, dansað dátt
draumblíð sumarkvöldin.
Fuglinn  upp í fjallató,
hann fékk ei næturró.

viðlag

Enn skín sól á sundin blá
sumarlangt í Eyjum.
Sama von og sama þrá
sveinum hjá og meyjum.
Enn er leikið létt og dátt,
líkt og fyrr á dögum.
Fyrsta ástin á sinn hátt
enn í mörgum sögum.
Örlögin á önnur sund
okkar stýrðu fleyjum.
Manstu okkar fyrsta fund,
fagurt var í Eyjum.
Æskuvors í morgunmund,
ég man það alla stund.

viðlag

[m.a. á plötunni Árni Johnsen – Þú veizt hvað ég meina…]