Afmælisbörn 23. mars 2017

Ingibjörg Smith

Afmælisbörn dagsins eru eftirfarandi:

Guðrún Árný Karlsdóttir söngkona úr Hafnarfirði er þrjátíu og fimm ára í dag. Guðrún Árný sem hefur sungið frá blautu barnsbeini vakti fyrst athygli þegar hún sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna 1999 og í framhaldinu söng hún í ýmsum sýningum á Hótel Íslandi og víðar. Hún hefur verið áberandi í sönglagakeppnum eins og undankeppni Eurovision, Jólalagakeppni Rásar tvö og Landslaginu auk þess sem hún var ein Frostrósanna. Guðrún Árný hefur einnig gefið út sólóplötu, gefið út jólaplötu í félagi við aðra söngvara og sungið á plötum fjölmargra annarra listamanna.

Einnig á söngkonan Ingibjörg Smith (Stefánsdóttir) afmæli á þessum degi en hún er áttatíu og átta ára gömul. Ingibjörg, sem mest alla tíð hefur alið manninn í Bandaríkjunum, söng sig inn í hjörtu landsmanna með lögum eins og Nú liggur vel á mér, Oft spurði ég mömmu (Que sera sera) og Við gengum tvö, auk fleiri laga en þau hafa komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina.