
Við tökur á Úllen dúllen doff
Úllen dúllen doff var hópur ungra grínleikara sem slógu í gegn með samnefndum útvarpsþáttum, gáfu síðan út plötu og fluttu að endingu grínefni sitt á sviði víða um land.
Hópurinn vann fyrst að nokkrum útvarpsþáttum, um klukkustundar löngum, sem fluttir voru í útvarpssal fyrir hópi áhorfenda, veturinn 1978-79. Fyrsti þátturinn var sendur út í nóvember 1979 en þeir voru þó ekki sendir út í beinni útsendingu.
Þættirnir voru blanda af tónlistar- og skemmtiatriðum, stuttum leikþáttum sem voru í umsjá ungra nýútskrifaðra leikara en einnig komu eldri og reynslumeiri póstar til sögunnar. Aðal leikararnir voru hjónin Gísli Rúnar Jónsson og Edda Björgvinsdóttir, Randver Þorláksson, Sigurður Sigurjónsson og Hanna María Karlsdóttir en gestaleikarar eins og Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Árni Tryggvason, Kristín Kristjánsdóttir, Júlíus Brjánsson, Jörundur Guðmundsson og Guðrún Þórðardóttir léku einnig stór hlutverk. Þættirnir voru síðan rammaðir inn af þáttarstjórnandanum og spyrlinum Jónasi Jónassyni. Margir komu að því að semja efni en það var þó mestmegnis í höndum Gísla Rúnars og Eddu. Ýmsir tónlistarmenn komu við sögu þáttanna og léku lifandi tónlist í þeim, oftast undir stjórn Vilhjálms Guðjónssonar sem jafnframt annaðist útsetningar.
Veturinn 1978-79 fóru fjórir þættir í loftið og slógu þeir samstundis í gegn, langan tíma tók þó að semja og vinna efni fyrir hvern þátt og því urðu þættirnir ekki fleiri. Þeir voru einnig á dagskrá veturinn eftir og sumarið 1980 fór hópurinn einnig að skemmta utan útvarpsins, s.s. á sviði á 17. júní skemmtun. Þótt flestum þætti Úllen dúllen doff fyndið útvarpsefni sluppu þau ekki alveg við gagnrýni og t.a.m. voru þau sökuð um rasisma en ein vinsælasta persóna þáttanna, hin færeyska frú Túrhilla Johansen þótti einkum á gráu svæði.

Úllen dúllen doff
Fleiri útvarpsþættir voru ekki framleiddir með hópnum en Svavar Gests hjá SG-hljómplötum tók hins vegar saman nokkur atriði úr þáttunum og setti saman í plötu sem gefin var út undir titlinum Úllen dúllen doff: úrval úr skemmtiþáttum útvarpsins, haustið 1980. Platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu, seldist síðan upp og var ófáanleg í mörg ár. Það var ekki fyrr en 1992 sem Steinar gáfu hana út aftur, þá á geislaplötu.
Sögu Úllen dúllen doff var hér lokið sem útvarpsþáttar en hópurinn tók nú að skemmta á sviði, á sumrin m.a. á sveitaböllum með Hljómsveit Björgvins Halldórssonar (1982 og 83) en á veturna á árshátíðum og hvers kyns vinnustaðaskemmtunum, einnig í Þjóðleikhúskjallaranum um tíma.
Úllen dúllen doff starfaði til haustsins 1983 og um það leyti kom út önnur plata þar sem hópurinn kom við sögu, það var barnaleikritið Kisubörnin kátu sem SG-hljómplötur sendi frá sér en sú plata var í öllu frábrugðin þeirri sem hópurinn hafði áður gert, enda um barnaefni að ræða. Kisubörnin kátu komu úr ranni Walt Disney, hafði verið þýtt af Guðjóni Guðjónssyni og búið til flutnings af Gísla Rúnari.

Úllen dúllen doff 1979
Þótt Úllen dúllen doff hópurinn hafi hætt haustið 1983 hafa þau komið í nokkur skipti fram undir því nafni, t.d. árið 1994.
Segja má að Úllen dúllen doff hópurinn hafi markað upphaf þess sem síðar átti eftir að sjást í áramótaskaupum Ríkissjónvarpsins, þar voru Gísli Rúnar, Edda, Laddi, Randver, Júlíus og Sigurður einkar áberandi og grínhópar eins og Gríniðjan, Sama og þegið og Spaugstofan áttu síðar eftir að koma fram með vinsælt sjónvarps- og útvarpsefni á borð við Heilsubælið í Gervahverfi, Fastir liðir eins og venjulega, 89 á stöðinni o.s.frv.