
Jónas Árnason
Fjögur afmælisbörn er að finna í gagnagrunni Glatkistunnar í dag:
Helgi Pétursson jafnan kenndur við Ríó tríó er sextíu og átta ára á þessum degi. Hann hefur sungið og leikið á kontrabassa með Ríó tríói allt síðan 1965 en hefur einnig fengist við annars konar tónlistartengd verkefni s.s. með Grasösnum sem og á plötum annarra listamanna. Helgi hefur einnig sent frá sér tvær sólóplötur.
Arnviður Snorrason raftónlistarmaður er þrjátíu og sjö ára gamall í dag. Arnviður hefur gengið undir listamannsnafninu Exos og gefið út fjölmargar plötur undir því nafni, þekktust þeirra er My home is sonic, sem vakti mikla athygli þegar hún kom út 2001. Arnviður er einnig trommuleikari í hljómsveitinni Lame dudes.
Einar Hjaltested Pétursson tenórsöngvari hefði einnig átt afmæli á þessum degi. Einar (1898-1961) starfaði lengi í Íslendingabyggðum í Bandaríkjunum og kallaði sig þá Havodin, en fluttist síðar heim til Íslands. Hann höndlaði áfengi illa og setti það mark á líf hans eftir að heim kom.
Jónas Árnason (1923-98) átti afmæli á þessum degi líka en hann var einna þekktastur fyrir texta sína, einkum við írsk þjóðlög sem margir þekkja í flutningi Þriggja á palli og Papanna, en einnig fyrir texta sína í samstarfi við bróður sinn, Jón Múla Árnason en þeir bræður skrifuðu fjölmarga þekkta söngleiki eins og Deleríum búbonis og Járnhausinn. Jónas sat einnig á alþingi um sextán ára skeið.