Þyrlar (1970-85)

Hljómsveitin Þyrlar var áberandi á Hólmavík og Ströndum um árabil, enda var hún aðalhljómsveit svæðisins í hátt í tvo áratugi og lék á helstu skemmtunum og böllum.

Þyrlar voru stofnaðir um 1970  (nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir og upphaf sveitarinnar gæti allt eins þess vegna hafa verið mun fyrr) og eins og gengur með langlífar sveitir fóru margir í gegnum hana, Gunnlaugur Bjarnason söngvari var meðal þeirra, Gunnar Jóhannsson bassaleikari, Guðmundur Jóhannsson söngvari, Leifur Hauksson (síðar fjölmiðlamaður og meðlimur Hrekkjusvína), Rut Bjarnadóttir söngkona (stundum var sveitin nefnd Þyrlar og Rut), Stefán Jónsson hljómborðsleikari og Ragnar Ölver Ragnarsson trommuleikari (á árunum 1981-85) en meðlimir hennar voru sjálfsagt nokkuð fleiri, þá er ekki ólíklegt að tveir trommuleikarar, Jón Ingimundarson og Jón Ragnarsson, hafi komið við sögu Þyrla. Allar frekari viðbætur og/eða leiðréttingar varðandi meðlima- og hljóðfæraskipan bandsins eru vel þegnar.

Þyrlar störfuðu allt fram á miðjan níunda áratuginn og var stundum nefnd Þyrlaflokkurinn hin síðari ár. Sveitin hefur komið saman í nokkur skipti á síðari árum, t.a.m. árin 2002, 2010 og 2012.