Thule [2] (1995-97)

Thule

Fremur takmarkaðar heimildir er að finna um svartmálmssveit að nafni Thule, sem mun hafa verið starfandi á síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar, líkast til á árunum 1995-97.

Thule tók upp nokkur lög sem voru löngu síðar gefnar út á plötunni Anthology er kom út í Bandaríkjunum á geislaplötuformi (2008) og samkvæmt upplýsingum tengdri þeirri útgáfu gæti sveitin hafa verið skipuð í upphafi þeim Sveini Snorra Magnússyni trommuleikara, Einari Thorberg Guðmundssyni gítar- og bassaleikara og Agli Finnbogasyni söngvara. Svo virðist sem Egill söngvari hafi hætt í sveitinni árið 1997 og þá hafi Einar tekið við söngvarahlutverkinu auk þess að spila á gítar og um svipað leyti hafi Engilbert Hauksson bæst í hópinn sem bassaleikari, sem og gítarleikarinn Egill Pálsson. Þannig virðist sveitin hafa verið skipuð uns hún hætti störfum síðar það ár og Potentiam hafa verið stofnuð upp úr sveitinni.

Auk framangreindrar Anthology plötu kom út split-kassetta með Thule ásamt Asmodeus árið 1997 en á þeirri útgáfu átti sveitin sjö lög, sveitin átti einnig tvö lög á safnplötunni Fire & ice (1997) en þau lög er einnig að finna á Anthology. Þess má geta að Anthology kom út á kassettuformi árið 2018 í takmörkuðu upplagi.

Efni á plötum