Tryggvi Hübner heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur 2018

Tryggvi J. Hübner við útnefningu heiðursverðlaunanna

Gítarleikarinn Tryggvi Hübner var útnefndur heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur við setningu Blúshátíðar í Reykjavík 2018.

Tryggvi hefur um árabil verið ein af burðarstoðunum í íslenskri blústónlist og leiðandi í íslensku tónlistarlífi bæði sem eftirsóttur gítarleikari og virtur gítarkennari.

Tryggvi hóf nám í fiðluleik við Tónlistarskóla Kópavogs árið 1963, þá 6 ára en árið 1969 hóf hann nám í gítarleik og hefur ekki lagt það hljóðfæri frá sér síðan. Hann stofnaði Gítarskóla Íslands ásamt Torfa Ólafssyni árið 1993.

Með hljómsveita sem Tryggvi hefur spilað með má nefna Cabaret, Deildarbungubræður, EIK, Stofnþel, Kletta, Pravda, Bárujárn, Hauka og Súld, svo einungis fáein dæmi séu nefnd.

Tryggvi hefur komið við sögu á u.þ.b. 200 hljómplötum með fjölbreyttri tónlist. Þar má nefna plötur með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Áhöfninni á Halastjörnunni, EIK, Mary Poppins og Súld, og plötur söngvara á borð við Bubba, Megas, Rúnar Júlíusson, Björgvin Halldórsson, Halla Reynis, Kötlu Maríu og Fabulu.

Hann hefur samið u.þ.b. 25 lög sem hafa verið gefin út á íslenskum hljómplötum og af sólóplötu hans Betri ferð sem kom út 1995 hafa tvö lög verið gefin út í 47 löndum af útgáfufyrirtækinu Parry/Promusic í USA.